Stjórnsýsluúttekt á velferðarsviði kostar allt að 2,8 milljónum
Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt að farið verði í stjórnsýsluúttekt á velferðarsviði Reykjanesbæjar og áætlaður kostnaður við verkið er á bilinu 2,1 til 2,8 milljónir króna.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri, kynnti málið á síðasta fundi bæjarráðs þar sem lögð voru fram drög að verkefnasamningi við RR ráðgjöf ehf.
Markmið stjórnsýsluúttektar á velferðarsviði Reykjanesbæjar er að draga fram alla þjónustuþætti sem varða farsæld barna hjá velferðarsviði Reykjanesbæjar, flokka þá og skilgreina hvaða þjónustuþættir falla undir hvert þjónustustig líkt og þau eru skilgreind í frumvarpi til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
Þetta kemur fram í gögnum síðasta fundar velferðarráðs Reykjanesbæjar þar sem Hera Ósk Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, kynnti tillögur Expectus að úrbótum á sviðinu og drög að verkefnasamningi við RR ráðgjöf sem bæjarráð hefur samþykkt.