Stjórnmálamenn standi vörð um almenningssamgöngur
Almennt er mikil samstaða um að mikilvægt sé að halda uppi ódýrum, öruggum og tíðum almenningssamgöngum. Almenningssamgöngur eru nauðsynlegar innan og milli byggðalaga og milli helstu samgöngumiðstöðva svo almenningur geti ferðast innanlands á einfaldan og öruggan hátt. Þetta kemur fram í ályktun aðalfundar Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sem haldinn var í Fjölbrautaskóla Suðurnesja um helgina.
Góðar almenningssamgöngur er jákvæður kostur fyrir þá aðila sem vilja leita ódýrari leiða til að ferðast í stað einkabíls og létta á álagi í umferðinni og minnka mengun. Á komandi árum mun þörfin fyrir góðar almenningssamgöngur aðeins aukast. Því er mikilvægt að stjórnmálamenn standi vörð um það almenningssamgöngukerfi sem nú er verið að byggja upp.
Ríkið greiðir í dag háar upphæðir til að halda uppi almenningssamgöngum því staðreyndin er sú að aðeins fáar leiðir standa undir kostnaði. Vekur það því mikla furðu að til skoðunar sé að taka þær leiðir sem standa undir sér út úr almenningssamgöngukerfinu þvert á það sem gert er í nágrannalöndum okkar. Slíkt mun aðeins leiða af sér annað hvort aukinn kostnað ríkisins og almennings eða lélegri almenningssamgöngur.
Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum skorar á stjórnmálamenn að standa vörð um almenningssamgöngur á Suðurnesjum sem og landinu öllu og til að tryggja að almenningssamgöngur séu raunhæfur kostur fyrir almenning.