Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Stjórnkerfisbreytingar Reykjanesbæjar samþykktar í bæjarstjórn
Þriðjudagur 19. nóvember 2002 kl. 18:51

Stjórnkerfisbreytingar Reykjanesbæjar samþykktar í bæjarstjórn

Á bæjarstjórnarfundi í kvöld fór fram síðari umræða um tillögur að breyttu stjórnskipulagi Reykjanesbæjar sem Sjálfstæðismenn lögðu fram. Tiltölulega litlausar umræður fóru fram um breytingarnar, en fjörugar umræður sköpuðust við fyrri umræðu, enda stóð bæjarstjórnarfundur þá fram undir miðnætti. Jóhann Geirdal sagði í samtali við Víkurfréttir að hann teldi eðlilegt að skipurtit bæjarins væri skoðað með reglulegum hætti: „Sveitarfélagin, starfsemin og atvinnulífið er að breytast og menn eiga að aðlaða skipurit sveitarfélagsins að breyttu umhverfi. Auðvitað er alltaf smá ágreiningur um allt og eins og kemur fram í bókun minnihlutans þá höfum við áhyggjur af því þegar verið er að fella málaflokka undir önnur starfssvið að þá muni þeir málaflokkar verða útundan. Við erum ekki að gagnrýna breytingarnar sem slíkar, en við óttumst að málaflokkum verði ekki nógu vel sinnt. Það veldur hver á heldur og það skiptir miklu máli að þessum breytingum sé fylgt vel eftir,“ sagði Jóhann.
Böðvar Jónsson, formaður Bæjarráðs telur að stjórnkerfisbreytingarnar verði mjög farsælar fyrir bæjarfélagið: „Þessar breytingar eru til þess fallnar að gera stjórnkerfið virkara og alla verkefnastjórnun heilsteyptari,“ sagði Böðvar í samtali við Víkurfréttir.


Jóhann Geirdal lagði fram eftirfarandi bókun fyrir hönd minnihlutans varðandi breytingarnar. Bókunin er svohljóðandi:
Bókun vegna afgreiðslu tillagna um breytt stjórnskipulag
„Við teljum það eðlilegt að sjórnskipulag sveitarfélagsins sé tekið til endurskoðunar með reglulegu millibili. Þá gefst tækifæri til að lagfæra það sem menn telja að betur mætti fara, breyta því sem breyttar aðstæður í samfélaginu kalla á en halda óbreyttu því sem reynist standa tímans tönn.
Margar þær breytingar sem nú eru til afgreiðslu eru að okkar mati eðlilegar. Má þar nefna styrkari fjármálastýringu og áætlanagerð og styrkari starfsmannaþjónustu. Hvorutveggja aðgerðir sem hefðu jafnvel mátt gerast fyrr.
Sú hugmynd að sameina Menningar- og safnaráð og Tómstunda- og íþróttaráð er á margan hátt áhugaverð, hins vegar kallar sú breyting á breytingu á stjórnun þess málaflokks. Núverandi forstöðumenn Tómstunda og íþróttasviðs eru ráðnir með tilliti til þess sviðs, en ekki með tilliti til þess að undir þá heyri jafnframt menningar- og safnamál. Það er því þörf á að endurskipa í hina nýju nefnd og að endurráða menn með tilliti til nýrra verkefna.
Sama á við um sameiningu Hafnarinnar og Markaðs- og atvinnuráðs. Eðlilegt er að okkar mati að endurskipuleggja þetta svið frá grunni. Framkvæmd Sjálfstæðisflokksins felur það hins vegar í sér að verið er að fella verksvið MOA undir höfnina og þá stjórnendur sem þar eru nú. Það liggur fyrir að búið er að segja upp þremur starfsmönnum MOA, forstöðumanni, ferðamálafulltrúa og atvinnuráðgjafa. Engar breytingar liggja fyrir á stjórnendum hafnarinnar. Verði ekki gerðar breytingar þar á er hætt við að almenn atvinnuþróun sitji á hakanum, nokkuð sem ástæða er til að hafa áhyggjur af einmitt nú þegar atvinnuleysi er að aukast og er í hámarki hér sé miðað við landið í heild.
Ennfremur er vandséð að ástæða sé til að umbuna núverandi stjórnendum hafnarinnar með auknum umsvifum, einmitt þegar fyrir liggur að bærinn þarf að taka á sig rúmlega 1100 milljóna skuld vegna reksturs hafnarinnar á síðustu árum. Það lætur nærri að núverandi stjórnendur hafnarinnar hafi tapað um 100 milljónum að jafnaði á ári s.l. 10 ár. Það ætti að kalla á breytta stjórnun en ekki aukið verksvið þessara sömu aðila.
Sú ákvörðun að leggja Framkvæmda- og tækniráð af virðist eðlileg í ljósi reynslunnar og flytja verkefni þess til bæjarráðs.
Í þeirri von að breytingarnar verði til bóta og í trausti þess að menn hafi þor til að endurskoða þessar breytingar reynist þær ekki eins vel og til er ætlast munum við greiða þessum breytingum atkvæði okkar.
Jafnframt leggjum við áherslu á að nýjar stöður forstöumanna Menningar- íþrótta- og tómstundaráðs (MÍT) og forstöðumanns Atvinnu- og hafnarráðs (ATH) verði auglýstar og ráðið í þessar stöður m.t.t. nýrra verkefna þessara sviða.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024