Samkaup hluthafafundur
Samkaup hluthafafundur

Fréttir

Stjórn Sparisjóðsins í Keflavík harðlega gagnrýnd í kolsvartri skýrslu FME
Þriðjudagur 25. janúar 2011 kl. 12:13

Stjórn Sparisjóðsins í Keflavík harðlega gagnrýnd í kolsvartri skýrslu FME

Hvorki voru til heildstæðar reglur um útlán né áhættustýringu hjá Sparisjóðnum í Keflavik, og stjórn sparisjóðsins sinnti ekki eftirlitshlutverki sínu með rekstri sjóðsins. Einungis sum lán fóru fyrir lánanefnd, sem var í sumum tilfellum ekki upplýst um lán sem sparisjóðsstjórinn hafði samþykkt. Þetta er á meðal þess lesa má í kolsvartri skýrslu Fjármálaeftirlitsins um Sparisjóðinn í Keflavík, SpKef, og Ríkisútvarpið greinir frá.


Ríkið tók SpKef yfir þann 22. apríl sl., en sjóðurinn hafði þá verið rekinn á undanþágu frá Fjármálaeftirlitinu frá því í maí 2009. Kröfur bárust slitastjórn sjóðsins upp á 36 milljarða króna, en kröfuhafar fá lítið sem ekkert upp í þær.

Bílakjarninn
Bílakjarninn


Fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur undir höndum skýrslu Fjármálaeftirlitsins um sparisjóðinn, sem unnin var í september árið 2008 - mánuði fyrir bankahrun. Þar eru vinnubrögð Sparisjóðsins harðlega gagnrýnd.


Útlánasafnið var sagt vafasamt, fjölmörg dæmi um lán með veði í hlutabréfum, og fyrirséð útlánatap vegna ofmats á verðmæti félaga. Óhóflegrar bjartsýni þótti gæta í útlánum og hirðuleysis við innheimtu lána.


Og gagnrýnin heldur áfram. Regluverk sparisjóðsins er sagt í ólestri, og þá sérstaklega er varðar áhættustýringu þar sem engar formlegar reglur séu til. Stjórn sjóðsins sinni ekki eftirlitshlutverki með rekstrinum. Þá skorti heildstæðar reglur um útlánaáhættu - þar sé meðal annars vísað í reglugerð sem ekki sé til, Fjármálaeftirlitið segir reglur um útlán og heimildir sparisjóðsstjóra til lánveitinga óskýrar.


Lánanefnd sparisjóðsins fjallaði á þessum tíma einungis um hluta þeirra lána sem áttu að fara fyrir hana. Fjármálaeftirlitið segir hlutverk hennar hafa verið óljóst og innri endurskoðun hafi ekki verið kunnugt um lán sem sparisjóðsstjórinn skrifaði upp á.


Og svo eru það lánin. Upplýsingar um tryggingar að baki mörgum þeirra voru óljósar. Í mörgum tilfellum voru tryggingar ónægar, fjárhæðir trygginga lægri en lánveitingar og veðréttur aftarlega. Enn fremur var ekki gert sérstakt áhættumat á viðskiptavinum. Þetta átaldi Fjármálaeftirlitið, enda voru útlán stærsta eign sparisjóðsins.


Þá kemst FME að þeirri niðurstöðu að verðmat á óskráðum hlutabréfum í eigu sparisjóðsins hafi verið óraunhæft og villandi - eignirnar ofmetnar um tæpa sjö milljarða króna og fyrirséð að sparisjóðurinn þurfi að færa verulega niður eignir.


Nú er staðan hins vegar sú að útlit er fyrir að íslenska ríkið leggi SpKef til fjórtán milljarða króna til að tryggja áframhaldandi starfsemi, segir á ruv.is.