Stjórn DS vill selja Garðvang
Stjórn DS samþykkti á fundi sínum sl. mánudag tillögu Reykjanesbæjar og Voga þess efnis að Garðvangur verði seldur hið fyrsta verði húsnæðið ekki nýtt sem hjúkrunarheimili.
Fulltrúar Sandgerðis og Sveitarfélagsins Garðs sátu hjá við afgreiðsluna sem samþykkt var með 4 atkvæðum Reykjanesbæjar og Voga.
Að sögn Eysteins Eyjólfssonar formanns stjórnar DS er löngu orðið tímabært að sveitarfélögin á Suðurnesjum komi sér saman um hvaða leiðir eigi að fara til að efla hjúkrunarþjónustu fyrir sjúka aldraða á Suðurnesjum og fjölga hjúkrunarrýmum.
„Í kjölfar umræðu á aðalfundi SSS vænti ég þess að ný stjórn SSS komi sterk til leiks og hniki málum áfram. Brýnt er t.d. að taka afstöðu til þess sem fyrst hvað gera eigi við Garðvang, að mínu viti á að selja hann ef ekki á nýta hann sem hjúkrunarheimili, auk þess að taka þarf afstöðu til framtíðarhlutverks Hlévangs."
Að mati Eysteins þurfa sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum og þingmenn að fylgja eftir ályktunum aðalfundar SSS. „Það á að gera skýlausa kröfu til stjórnvalda, en málaflokkurinn er á ábyrgð ríkisins, um að þau standi með sveitarfélögunum á Suðurnesjum í því að byggja upp hjúkrunarþjónustu við aldraða sem uppfylli vaxandi þörf og standist samanburð við önnur heilbrigðisumdæmi landsins.
Næsta víst er að ef ekkert verður gert þá stefnir í óefni.“