Stígur lagður umhverfis Seltjörn
Verið er að leggja lokahönd á gerð stígs umhverfis Seltjörn sem verður um 2 kílómetra langur. Vonir standa til að hægt verði að byggja upp frekari aðstöðu við Seltjörn og Sólbrekkuskóg og gera að útivistarparadís.
Stígurinn er lagður möl og fræs er notað sem yfirborðslag. Fræs er malbikskurl, en allt malbik sem til fellur er mulið niður og notað í stígagerð hjá Reykjanesbæ. Samskonar efniviður var t.a.m. notaður við stígagerð í framtíðar Njarðvíkurskógum, sem er svæðið ofan Bolafótar og að Þjóðbraut.
Að sögn Guðlaugs Helga Sigurjónssonar sviðsstjóra umhverfissviðs er hugmyndin að nýta allan efnivið vel, auk þess sem fræs er gott undirlag fyrir bæði göngur og hlaup.
„Hugmyndafræðin að baki stígnum er einnig að láta hann falla sem best inn í umhverfið og mér sýnist það hafa tekist vel. Í framhaldi getum við svo vonandi byggt upp aðstöðu við Sólbrekkuskóg því hugmyndin er að þetta verði eitt af aðal útivistarsvæðunum okkar, með veiðivatn, útivistarparadís og aðstöðu sem þarf til dvalar á svæðinu í langs tíma, s.s. salernisaðstöðu,“ segir Guðlaugur á vef Reykjanesbæjar.