Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Stéttarvitund fólks hefur minnkað
Laugardagur 1. maí 2004 kl. 13:46

Stéttarvitund fólks hefur minnkað

Frídagur Verkalýðsins er í dag. Þessi helgi dagur vinnandi manna lendir þetta árið á frídegi, þ.e. helgi. En hvað þýðir þessi dagur fyrir vinnandi stéttir manna í þessu landi? Er yfirbragð fyrsta maí það sama nú og það var fyrir einhverjum áratugum síðan? Víkurfréttir fengu verkalýðsforkólfinn Kristján Gunnarsson sem starfað hefur að verkalýðsmálum á Suðurnesjum frá árinu 1990 til að spjalla aðeins um gildi og þýðingu 1. maí í dag.

Hvernig manst þú fyrst eftir 1. maí hátíðahöldunum?
Kröfugöngu í rigningu og roki með afa og ömmu. Það var þrammað niður á torg undir lúðrasveitahljóm. Mjög eftirminnilegt.

Hefur boðskapur 1. maí breyst í tímans rás?
Í eðli sínu ekki. Hann er sá hinn sami í grundvallaratriðum. 1. maí er til að þjappa fólki saman og brýna það saman. Þetta er líka sá dagur þar sem við komum skilaboðum til stjórnvalda og segjum frá áherslum okkar og framtíðarsýn.

Finnst þér stéttarvitund fólks hafa breyst?
Hún hefur minnkað það gefur augaleið. Hún er samt sterk hjá þeim hópi sem er virkt í félögunum. Eldri kynslóðin er þar meira áberandi. Það er gríðarlegt framboð af afþreyingu í samfélaginu og samkeppnin er því mikil.

Nú er þetta ár samninga – skiptir 1. maí meira máli á samningsári?
Já hann gerir það á vissan hátt. Það eru sterkar áherslur verkalýðshreyfingarinnar. Við erum að koma út úr miklum samningaviðræðum þar sem við höfum endurnýjað kjarasamninga og menn koma mjög ferskir og auðvitað litaðir af þeirri umræðu.

Hvað ætlar þú að gera 1. maí?
Ég ætla að vera norður á Akureyri þar sem ég verð aðalræðumaður dagsins. Síðan verð ég aftur á Ólafsfirði. Þetta er í fyrsta skipti í mjög langan tíma sem ég verð ekki í Stapanum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024