Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Stéttarfélögin hvetja atvinnurekendur til að aðstoða
Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður VSFK.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 13. nóvember 2023 kl. 14:58

Stéttarfélögin hvetja atvinnurekendur til að aðstoða

„Það hafa margir Grindvíkingar haft samband við okkur og spurt út í ýmis mál sem þá vanhagar um. Við biðlum til atvinnurekenda og eigendur fyrirtækja að þeir aðstoði fólkið. Þetta snýr að húsnæðismálum og vinnusókn sem getur verið snúin fyrir marga,“ segir Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis.

Sama var uppi á teningnum hjá Starfsmannafélagi Suðurnesja. Trausti Björgvinsson, formaður félagsins sagði að vinna stæði yfir í þá veru að losa um sumarhús og íbúðir félagsins svo hægt væri að aðstoða Grindvíkinga í félaginu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Guðbjörg segir að hjá VSFK séu um eitthundrað félagar sem eigi heima í Grindavík. Helmingur þeirra eru útlendingar og stærstur hluti hópsins er ungt fólk. „Það er því ljóst að það getur verið erfiðara fyrir fólk af erlendum uppruna að leysa t.d. húsnæðismál. Þetta er líklega aðeins auðveldara fyrir Íslendinga sem eiga ættingja víða. Við eigum tíu sumarhús og íbúðir sem við erum að losa svo þau séu laus fyrir Grindvíkinga en þetta húsnæði er í talsverðri fjarlægð frá Suðurnesjum þannig að það flækir málin. Það er ljóst að það er ekki lausn til lengri tíma ef það mun þurfa, sem er líklegt. Inn í þessa flækju bætast við leikskóla- og skólamál barna. Þess vegna hvetjum við atvinnurekendur til að aðstoða fólkið sitt sem er í þessari stöðu,“ segir Guðbjörg og bætti því við að margir starfsmenn hafi áhyggjur af afkomu sinni, t.d. hvort það fái laun ef það getur ekki sótt vinnu.

„Við erum bara á fullu að vinna í þessum málum núna. Það er þó nokkur hópur í okkar félagi, fólk sem býr í Grindavík,“ segir Trausti hjá STFS. „Við reynum eins og við getum til að aðstoða. Fólk hefur haft samband og við reynum eftir fremsta megni að aðstoða en biðlum til atvinnurekenda til að gera það líka.“

Trausti Björgvinsson, formaður Starfsmannafélags Suðurnesja.