Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sterk staða Sveitarfélagsins Garðs
Þriðjudagur 14. maí 2013 kl. 10:42

Sterk staða Sveitarfélagsins Garðs

Ársreikningur Sveitarfélagsins Garðs fyrir árið 2012 hefur verið samþykktur samhljóða. Staða sveitarfélagsins er sterk samkvæmt reikningnum. Handbært fé þess í óbundnum bankainnistæðum er 655 milljónir króna. Langtímaskuldir voru kr. 291 milljónir. Skuldahlutfall samkvæmt viðmiðum í fjármálareglum sveitarstjórnarlaga var 2,04%, en má vera allt að 150%.

Bókun bæjarstjórnar:
Ársreikningur Sveitarfélagsins Garðs fyrir árið 2012 felur í sér sterka fjárhagslega stöðu sveitarfélagsins. Handbært fé A- og B- hluta í óbundnum bankainnistæðum nam kr. 655 milljónum og langtímaskuldir voru kr. 291 milljónir. Skuldahlutfall samkvæmt viðmiðum í fjármálareglum sveitarstjórnarlaga var 2,04%, en má vera allt að 150%. Rekstrarafkoma samkvæmt samanteknum ársreikningi A- og B-hluta, fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var jákvæð að fjárhæð kr. 37 milljónir. Rekstrarniðurstaða ársins var hins vegar rekstrarhalli að fjárhæð kr. 50 milljónir. Báðar þessar lykiltölur rekstrarreiknings eru mun hagstæðari en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins. Framlag frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga nam um 32% af heildartekjum A-og B- hluta og er því ljóst að rekstur sveitarfélagsins er mjög háður þeim framlögum, m.a. þar sem íbúum sveitarfélagsins hefur fækkað og skatttekjur eru lágar í samanburði við mörg önnur sveitarfélög. Það er því ljóst að meðan ekki verður aukning á skatttekjum sveitarfélagsins verður Sveitarfélagið Garður að treysta á framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Garðs lýsir ánægju með sterka fjárhaglega stöðu sveitarfélagsins og leggur áherslu á að viðhalda henni til framtíðar. Bæjarstjórn lýsir einnig ánægju með að niðurstöður rekstrarreiknings sýna betri afkomu en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Hins vegar leggur bæjarstjórn áherslu á að sveitarfélagið standist ákvæði í fjármálareglum sveitarstjórnarlaga um jafnvægisreglu varðandi rekstrarniðurstöðu næstu ára.
Bókunin samþykkt samhljóða. Ársreikningurinn samþykktur samhljóða og áritaður af bæjarstjórn.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024