Stél af flugvélasprengju fannst í Kleifarvatni
Kafarar sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar fundu í dag stél af flugvélasprengju í Kleifarvatni eftir að ábending um torkennilegan hlut í vatninu barst frá köfurum björgunarsveitar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar í Hafnarfirði. Frá þessu er greint á vefsíðu Landhelgisgæslunnar.
Ákveðið var að rannsaka hlutinn nánar eftir að nánari lýsing var fengin og fannst hluturinn fljótlega eftir að köfun hófst. Var honum náð upp á yfirborðið og kannaður nánar. Sást þá að um var að ræða stél af flugvélasprengju. Eftir að sprengjusérfræðingar voru fullvissir um að hluturinn væri ekki hættulegur var hann tekinn á land. Er þeim hulin ráðgáta hvernig stél sprengjunnar, líklega af tegundinni MK 83 og vegur 450 kg að þyngd, hafnaði í vatninu en slíkar sprengjur hafa verið notaðar eftir stríð og eru ennþá í notkun. Hugsanlega hefur hluturinn verið notaður við æfingar kafara Varnarliðsins í Kleifarvatni.
Að sögn sprengusérfræðinga Landhelgisgæslunnar brugðust björgunarsveitarmenn í Hafnarfirði hárrétt við þegar þeir komu auga á hlutinn. Tóku niður staðsetningu hans og höfðu síðan samband við Landhelgisgæsluna. Afar mikilvægt sé að hreyfa ekki við torkennilegum hlutum því sprengjur geta enn verið virkar, þrátt fyrir áratuga legu í sjó eða vatni.
Myndirnar eru af vef Landhelgisgæslunnar.