Steinunn lenti í kröppum dansi
Veiði bátanna í nóvember var nokkuð góð og mikil fjölgun er orðin á bátunum hérna fyrir sunnan eins og frá hefur verið greint í pistlum í nóvember.
Tíðarfarið hefur verið mjög gott en þó gerði ansi vitlaust veður núna um helgina og þýddi það langlegu í þrjá daga fyrir svo til alla bátana.
Lítum aðeins á aflatölur hjá bátunum og byrjum á netabátunum því að stóru netabátarnir hafa allir verið á ufsaveiðum við Suðurlandið og fiskað mjög vel. Grímsnes GK er sem fyrr aflahæstur með 169 tonn í átta róðrum og mest 30 tonn. Langanes GK 159 tonn í sjö túrum og mest 47 tonn í einni löndun. Erling KE 154 tonn í sex róðrum og mest 55 tonn í einni löndun. Ansi góður mánuður hjá þeim eins og sést. Hjá hinum sem voru á þorskinum var aflinn ansi mismunandi, Maron GK var með 31 tonn í nítján, Sunna Líf GK tuttugu tonn í tíu og mest 5,4 tonn. Halldór Afi GK 18 tonn í sautján, Hraunsvík GK 17,4 tonn í tólf róðrum en hann landaði í Grindavík og Guðrún GK var með 21 tonn í fjórtán og mest 4,9 tonn.
Hjá dragnótabátunum var Sigurfari GK hæstur bátanna og hann varð annar aflahæsti dragnótabátur landsins í nóvember. Var með 104 tonn í sextán túrum og mest 19,5 tonn. Siggi Bjarna GK 63 tonn í fjórtán og Benni Sæm GK 43 tonn í þrettán róðrum.
Stóru línubátarnir lönduðu allir afla sína úti á landi og var ekið síðan suður til vinnslu. Siglufjörður var aðalhöfnin hjá bátunum og voru ansi margir sem lönduðu þar. Jóhanna Gísladóttir GK var með 411 tonn í fjórum róðrum landað þar og á Sauðárkróki. Hrafn GK var með 304 tonn í fimm túrum, Sighvatur GK 277 tonn í þremur róðrum og Valdimar GK 261 tonn í fjórum túrum, allir á Siglufirði. Fjölnir GK var með 409 tonn í fjórum róðrum á Siglufirði og Djúpavogi.
Lítum á bátanna sem hafa landað fyrir sunnan og við skulum bara horfa á landaðan afla frá bátunum hérna á Suðurnesjunum. Ragnar Alfreðs GK var með 10,4 tonn í þremur róðrum, Guðrún Petrína GK 34 tonn í sjö og Máni II ÁR 54 tonn í fjórtán róðrum. Guðrún GK var með 32 tonn í níu, Alli GK 56 tonn í tólf róðrum og Katrín GK 44 tonn í átta róðrum. Allt eru þetta bátar sem lönduðu allan mánuðinn í Sandgerði nema Ragnar Alfreðs GK, hann var fyrst á Skagaströnd.
Lítum á fleiri. Steinunn HF 27 tonn í sex, Daðey GK 24 tonn í fjórum, Beta GK 20 tonn í fjórum, Dóri GK 22 tonn í fimm, Geirfugl GK átján tonn í fjórum, Óli á Stað GK 33 tonn í fimm, Margrét GK 38 tonn í fjórum. Allir þessir bátar hafa landað í Sandgerði.
Sævík GK 53 tonn í sex í Sandgerði og síðan sextán tonn í þremur í Grindavík. Dúddi Gísla GK 42 tonn í tíu, öllu landað í Grindavík.
Einn af þessum bátum, Steinunn HF, lenti heldur betur í kröppum dansi á siglingu heim. Þetta var föstudaginn 27. nóvember. Báturinn var þá í hópi margra báta sem fóru á sjóinn frá Sandgerði en þeir urðu síðastir til þess að klára að draga línuna meðal annars út af því að þeir slitu. Upprunalega ætluðu þeir að fara til Hafnarfjarðar með bátinn og róa frá Hafnarfirði í brælunni. Byrjað var að hvessa mjög mikið af suðaustri og þegar að Steinunn HF kom að Garðskaga var veður orðið mjög vont og upp í 30 metrar í hviðum. Þegar þarna var komið við sögu var orðið útilokað fyrir bátinn sem var með átta tonn af fiski um borð að sigla til Hafnarfjarðar og því þurfti að harka til Keflavíkur á móti vindi og miklum sjó. Áhöfn bátsins sem taldi fjóra menn bjó sig í brúnni á bátnum, tveir bakborðsmegin og tveir stjórnborðsmegin. Heimferðin frá Garðskaga tók um þrjá og hálfan tíma og öldubrjótur sem er fremst á stefni bátsins bjargaði miklu en þó náði eitt brotið að ýta miðjuglugganum í brúnni inn og sjór fór að leka. Sömuleiðis lak sjór inn um topplúguna yfir lúkarnum fremst í bátnum en eftir allt þetta hark náði áhöfn bátsins að komast til Keflavíkur og þegar ég mætti þar á bryggjuna í vitlausu veðri var mikill léttir í áhöfn bátsins. Þess má geta að einn af þeim sem lenti í þessu var líka á Gottileb GK þegar að hann strandaði við Hópsnes GK fyrir nokkrum árum síðan.
Þetta fór sem betur fer vel en mjög tæpt var það og með þessum pistli fylgir myndband sem var tekið þegar að Steinunn HF kom til Keflavíkur.