Steinar friðargæsluliðið: „Hlakka til að koma heim í jólavesenið“
Steinar Örn Magnússon friðargæsluliði er nú kominn til starfa á ný í höfuðborg Afghanistan Kabúl. Steinar hélt til starfa síðastliðinn miðvikudag og segir að honum hafi verið mjög vel tekið þegar hann snéri aftur til starfa.
„Það var heilsast og faðmast þegar við komum þar sem félagar okkar biðu á flugvellinum. Þetta er eins og ein stór fjölskylda hérna enda menn búnir að vera saman í langan tíma og þurft að eiga við margskonar verkefni,“ sagði Steinar sem enn er með níu sprengjubrot í sér og þar af þrjú í ristinni eftir sprengjuárásina í Kjúklingastræti í október síðastliðnum. „Þetta er að mjakast í rétta átt hjá mér og ég er byrjaður að kenna nemendum mínum aftur. Það voru fagnaðarfundir þegar ég hitti þá enda eru þetta góðir drengir og fullir af áhuga.“
Aðspurður segir Steinar að sama hættuástand sé nú í Kabúl og þegar hann hélt heim. „Ferðum Íslendinga út fyrir völlinn hefur fækkað en við þurfum nú samt að fara ýmsar ferðir tengdar starfi okkar og þá einkum á milli herstöðva,“ sagði Steinar.
Steinar mun koma aftur heim til Íslands þann 3. desember en þá er starfi hans í Kabúl lokið. „Ég hlakka mjög mikið til þess að koma heim og hitta fjölskylduna, vinina og byrja á jólaveseninu og öllu sem því fylgir,“ sagði Steinar í samtali við Víkurfréttir í dag.
VF-myndir: Efri mynd, Steinar í Skrúðgarðinum í Njarðvík. Neðri mynd, Steinar með syni sínum Gabríel.