Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Stefnt á að hefja vinnslu á ný í Einhamar Seafood 9. janúar
Sandra á nýju skrifstofunni í Hafnarfirði.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
miðvikudaginn 13. desember 2023 kl. 16:02

Stefnt á að hefja vinnslu á ný í Einhamar Seafood 9. janúar

„Við sögðum starfsfólkinu strax að þau þyrftu ekki að hafa áhyggjur af launum í þrjá mánuði hið minnsta. Svo sendum við þau heim í jólafrí en höfum ákveðið að hefja vinnslu á ný 9. janúar,“ segir Sandra Antonsdóttir. Hún og Stefán maðurinn hennar hafa rekið sjávarútvegsfyrirtækið Einhamar Seafood í fjölda ára en engin vinnsla hefur verið í fyrirtækinu eftir hamfarirnar.

Sandra var að mála eldhúsvegginn hjá sér föstudaginn örlagaríka og þurfti að setja verkið í bið, sem það er ennþá. „Ég ætlaði mér að byrja fyrr að mála en komst ekki í það fyrr en seinni partinn. Á svipuðum tíma kom einn starfsmanna minna til að skipta um útiljós en þá var allt komið á fullt. Ég spurði hann hvort ég ætti ekki að halda stiganum en hann hélt nú ekki. Svo sá ég að nágrannarnir voru farnir að bera töskur og dót út í bíl en ég hélt áfram að reyna mála, var búinn að taka rúllugardínuna niður svo mér þætti fróðlegt að vita hvað nágrannarnir sem voru að flýja jarðaskjálftana, hugsuðu þegar þeir sáu mig uppi í tröppu að mála eldhúsið! Ég sá síðan fljótt að þetta gengi ekki, hringdi í dóttur mína og sagði henni að við myndum gista í íbúðinni okkar í Reykjavík. Stebbi maðurinn minn [Stefán Kristjánsson] var búinn að vera í bænum, ég hringdi í hann og hann skyldi ekkert í mér að ætla ekki bara að gista í Grindavík. Hann sagðist vilja kíkja í atvinnuhúsnæðið hjá okkur, hvort allt væri ekki í lagi og ætlaði sér að gista en svo kom rýmingin. Hann var nú samt ekkert að stressa sig mikið, tók fullt af dóti úr bílskúrnum og var eflaust með þeim síðustu sem yfirgaf Grindavík.“

Sandra og Stebbi hafa rekið sjávarútvegsfyrirtækið Einhamar Seafood til fjölda ára og gátu hóað starfsmönnum saman viku eftir rýminguna í húsnæði Miðflokksins í Hafnarfirði. „Við pöntuðum grillvagninn og áttum góða stund með starfsfólkinu okkar. Við sögðum þeim strax að þau þyrftu ekki að hafa áhyggjur af launum, við myndum byrja á að tryggja þeim laun í þrjá mánuði. Mikið af verkafólkinu okkar er erlent, mest frá Póllandi og við buðum þeim að fara bara strax heim í jólafrí, keyptum miða aðra leiðina fyrir þau og svo myndum við sjá til hvenær þau sneru til baka. Við vorum með smávegis afla óunninn en gátum klárað það og stoppuðum svo bátana okkar á meðan við vorum að meta stöðuna. Þeir hafa verið á Stöðvarfirði svo sjómennirnir fengu bara smá frí en svo byrjuðu þeir aftur og hafa selt aflann á markaði og eins hafa tvær vinnslur í Ólafsvík verið að kaupa af okkur. Við ákváðum að koma verðmætustu vélunum okkar í öruggt skjól hjá Marel svo við höfum því ekki verið með neina vinnslu í gangi en vorum svo heppin að geta opnað skrifstofuna okkar í Hafnarfirði. Við fengum húsgögn lánuð, sóttum tölvurnar okkar og það hefur verið gott að geta verið þarna, gott fyrir starfsfólkið að geta kíkt í heimsókn til okkar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Við erum að koma vélunum aftur fyrir og erum nýlega búin að taka ákvörðun um að hefja vinnslu aftur níunda janúar en erum í vandræðum með að finna húsnæði fyrir starfsfólkið. Það myndi hjálpa mikið til ef vinnandi fólki í Grindavík verður gert kleift að flytja aftur sem fyrst. Ef það er í lagi með húsið þitt, af hverju áttu þá ekki bara að mega flytja aftur í það, sérstaklega ef þú ert ekki með börn? Það mun alla vega ekki gerast fyrir áramót en vonandi munu yfirvöld hugsa þetta gaumgæfilega og slaka á hömlum strax á nýju ári. Þetta verður annars þungur róður þegar vetur konungur mætir, mér finnst ekki spennandi tilhugsun að keyra Krýsuvíkurleiðina eða Nesveginn þegar snjórinn kemur. Annars þýðir ekkert annað en vona það besta, við vorum heppin því hvorki vinnsluhúsnæðið eða okkar húsnæði skemmdist, við eigum íbúð í Reykjavík sem er eins og sumarbústaðurinn okkar svo þetta var ekki svo mikil breyting fyrir okkur. Allt starfsfólkið okkar gaf strax út að það myndi snúa til baka, við erum með frábært starfsfólk svo ég lít framtíðina björtum augum,“ sagði Sandra að lokum.