Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 27. júlí 2000 kl. 10:23

Stefnir á Olympíuleikana 2004

Birkir Már Jónsson er þrettán ára sundkappi frá Keflavík. Hann vann það afrek á dögunum að verða Íslandsmeistari í 1500 m skriðsundi karla, á meistaramóti Íslands í sundi.Birkir hefur æft sund með sunddeild Keflavíkur síðan hann var sjö ára og hefur alltaf verið með sama þjálfarann, Eðvarð Þór Eðvarðsson. Sterkustu greinar Birkis Más eru 1500 m skriðsund og 200 m flugsund og hefur hann mest gaman af að keppa í þeim greinum. Takmarkið er síðan að komast á Ólympíuleikana árið 2004, en þá verður hann 17 ára. Birkir keppti ekki eingöngu í skriðsundi á Íslandsmótinu, heldur einnig í 100 og 200 metra flugsundi og bætti hann árangur sinn í öllum þremur greinunum. Á síðasta ári setti hann Íslandsmet í 200 m skriðsundi eldri sveina á aldursflokkaskiptu Íslandsmeistaramóti, og stendur það met enn. Birkir segir foreldra sína styðja sig mjög mikið í íþróttinni og til að mynda hafi þau ekki misst af nema einu móti sem hann hefur tekið þátt í. „Það er rosalega gott að vita af þeim á mótum. Þau hafa veitt mér mikla hvatningu og stuðning þegar ég er að keppa“, segir Birkir. Hvernig fer svo ungur drengur að því að ná svo góðum árangri? „Ég æfi sex sinnum í viku, tvo tíma í senn og hef gert það lengi“, segir Birkir Már og bætir því við að það sé Eðvarði Þór að þakka að hann hafi náð svona langt og er greinilega ánægður með þjálfarann sinn, sem hefur nú kvatt sunddeild Keflavíkur. Sundið tekur mikinn tíma hjá Birki, en á veturna segir hann það geta verið erfitt að standa sig bæði í náminu og sundinu. „Það er svolítið erfitt þegar ég fer á æfingar klukkan þrjú á veturna, því þá á ég allt heimanámið eftir þegar ég kem heim. Það þarf ég svo að klára á kvöldin þegar ég er orðinn svo þreyttur“, segir Birkir, en þrátt fyrir að vera mjög upptekinn unglingur eru einkunnirnar hans yfirleitt mjög háar. Að loknum grunnskóla stefnir hann síðan á að fara í Menntaskólann á Akureyri, en þar finnst honum mjög fallegt. Það þarf þó að gera fleira en að synda þegar maður er þrettán ára, en Birkir er að fara í 8. bekk í haust og fermist síðan næsta vor. Birkir á líka fleiri áhugamál en sundið: „Þegar ég hef tíma finnst mér gaman að fara í golf með félögum mínum, en ég æfði það í eitt sumar. Það er þó bara áhugamál núna“, segir Birkir, en viðurkennir að það sé ekki mjög mikill tími sem hann hefur fyrir áhugamál sín. Birkir hefur einnig gaman af knattspyrnu og æfði hana jafnhliða sundinu þar til fyrir einu og hálfu ári síðan. „Þá fóru æfingar og keppnir í greinunum að rekast á og ég varð að velja á milli. Mér fannst ekkert erfitt að velja því sundið er miklu skemmtilegra“, segir Birkir, án þess að hugsa sig tvisvar um. Þessa dagana er sunddeildin í eins og hálfs mánaðar fríi frá æfingum og segir Birkir það vera langþráð, enda verða sundmenn einhvern tíma að hvílast. Næsta mót er síðan í ágúst og aldrei að vita nema kappinn haldi áfram að bæta sig þar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024