Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Stefna skal að lokun Garðvangs
Föstudagur 26. október 2012 kl. 14:25

Stefna skal að lokun Garðvangs

Starfshópur bæjarráðs Reykjanesbæjar hefur skilað af sér skýrslu um málefni aldraðra og uppbyggingu hjúkrunaraðstöðu í Reykjanesbæ. Niðurstaða starfshópsins var sú að litið verði til Nesvalla til framtíðaruppbyggingar á hjúkrunarheimilum fyrir Suðurnesjamenn. Reykjanesbær leggur til að stefnt skuli að lokun Garðvangs þegar nýtt hjúkrunarheimili á Nesvöllum verður tekið í notkun. Sú uppbygging sem ráðist verði í á Nesvöllum verði til handa öllum íbúum á Suðurnesjum.

Í niðurstöðum skýrslunnar segir að ráðist verði í nauðsynlegar úrbætur á Hlévangi í Reykjanesbæ til að nálgast þær kröfur sem Landlæknisembættið hefur gert til aðstöðu á hjúkrunarheimilum, á meðan unnið er að frekari stækkun Nesvalla.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Starfshópurinn segir að rekstrarfyrirkomulagið verði til rækilegrar endurskoðunar í samvinnu við sveitarfélögin og komið í þann farveg sem hagkvæmastur er fyrir íbúa Suðurnesja.
Sérstaklega skal taka tillit til eftirfarandi þátta:
Hagkvæm nýting fullkominnar aðstöðu.
Umönnun og þjónusta eins og best verður á kosið.
Uppbygging mannauðs og fagþekkingar.
Tengsl við aðra þjónustu og búsetukosti.
Hugsað til framtíðar í öldrunarþjónustu.
Sjá til þess að ríkið standi við lögbundna skyldu gagnvart íbúum.
Tryggja skynsama og góða ráðstöfun skattpeninga okkar.
Bein aðkoma Suðurnesjamanna að rekstrinum verði áfram tryggð.
Losa sveitarfélögin undan fjárhagslegri ábyrgð á rekstrinum.

Starfshópinn skipa þau Baldur Guðmundsson, Guðný Kristjánsdóttir og Árni Sigfússon. Skýrsla þeirra var samþykkt samhljóða með breytingum þann 4. október sl.

Staðan í dag
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar lagði fram stefnumörkun sína í uppbyggingu á öldrunarþjónustu í sveitarfélaginu árið 2005, með nýju aðalskipulagi og möguleika til uppbyggingar á Nesvöllum, þar sem m.a. var gert ráð fyrir byggingu á nýju hjúkrunarheimili. Þær tillögur komu í kjölfar ítarlegrar greiningar á aukinni þörf fyrir hjúkrunarrými og bætta þjónustu fyrir eldri borgara á Suðurnesjum með fjölbreyttum búsetu- og stuðningsúrræðum.

Ríkið hefur ítrekað viðurkennt þörf fyrir fjölgun hjúkrunarrýma á svæðinu og nokkuð hefur miðað áleiðis á undanförnum árum, aðallega með heimildum ríkis til að breyta dvalarrýmum í hjúkrunarrými.
Engu að síður eru aðeins 95 hjúkrunarrými í notkun á Suðurnesjum í dag sem dreifist á HSS, Víðihlíð, Garðvang og Hlévang. Þetta er lægsta hlutfall hjúkrunarrýma á landinu. Sumir landshlutar eru með meira en tvöfalt fleiri vistrými á hvern „ellilífeyrisþega“ í samanburði við eldri borgara á Suðurnesjum.
Ríkið samþykkti á vordögum 2010 byggingu 30 rýma hjúkrunarheimilis í Reykjanesbæ og í vor náðist samkomulag við ríkið að bæta um betur og byggja þess í stað 60 rúma hjúkrunarheimili. Það þarf, að óbreyttu, að flytja hjúkrunarsjúklinga úr óhentugu húsnæði í það nýja.

Þrátt fyrir þessa 25 rúma aukningu, nægir það rétt til að uppfylla biðlista fyrir brýnni þörf á hjúkrunarrými í dag. Þótt stefnt sé að enn frekari heimahjúkrunarlausnum og húsnæðislausnum sem auka líkur á að íbúar geti búið lengur heima, er nauðsynlegt að eiga möguleika á frekari uppbyggingu hjúkrunarrýma á Nesvöllum. Auk þess er augljóst að endurbæta þarf það húsnæði sem nú er nýtt fyrir hjúkrunarsjúklinga á Garðvangi og Hlévangi og því koma frekari nýbyggingar á Nesvöllum sterklega til greina. Gert er ráð fyrir því í aðalskipulagi Reykjanesbæjar, segir í skýrslu starfshópsins.

Nýbyggingin verður á Nesvallasvæðinu, í samræmi við stefnu Reykjanesbæjar frá 2005. Nesvallasvæðið er staðsett í miðju sveitarfélagsins, þar sem gert er ráð fyrir ríflegum stækkunarmöguleikum til framtíðar. Í júní 2008 voru öryggisíbúðir og þjónustumiðstöð teknar í notkun, en innangengt verður á milli þeirra og nýja hjúkrunarheimilisins. Óskað var eftir stuðningi ríkisins við byggingu hjúkrunarheimilis í samræmi við framlagða stefnu. Því erindi var svarað jákvætt með fjárframlögum af velferðarráðherra Guðbjarti Hannessyni og fjármálaráðherra Steingrími J. Sigfússyni árið 2011. Í kjölfarið gekk Reykjanesbær frá kaupum á lóð fyrir 90 rúma hjúkrunarheimili að Nesvöllum í júní 2011.

Framtíðaruppbygging
Starfshópurinn segir það vera grundvallaratriði að þjónusta við íbúa Reykjanesbæjar sem þurfi á hjúkrunarvistun að halda, bjóðist miðsvæðis í bæjarfélaginu sjálfu enda um 14.000 manna samfélag að ræða. Sú uppbygging sem átt hefur sér stað á Nesvöllum er einmitt mjög miðsvæðis fyrir íbúa og stutt í samgönguleiðir um Reykjanesbraut. Þær umbætur sem verða við uppbyggingu og rekstur hjúkrunarheimilis að Nesvöllum er jákvæðasta skrefið sem stigið hefur verið í þá átt að skapa öldruðum íbúum viðunandi hjúkrunaraðstöðu. Af þeim 68 íbúum sem búa á heimilum DS, þ.e. Garðvangi og Hlévangi þá eru 48 frá Reykjanesbæ, 8 frá Sandgerði, 7 frá Garði og 5 úr Vogum.

Sú aðstaða sem íbúar Reykjanesbæjar hafa búið við á Hlévangi í Reykjanesbæ og Garðvangi í Sveitarfélaginu Garði, er mun lakari en það sem mun bjóðast á Nesvöllum. Komið hefur ítrekað fram að rekstrarstærð beggja eininga á Hlévangi og Garðvangi er einnig mjög óhagstæð. Hlévangur hefur komið örlítið betur út en eftir að heimilinu þar var alfarið breytt í hjúkrunarheimili hefur reksturinn verið að þyngjast.

Landlæknisembættið hefur gert alvarlegar athugasemdir við aðstöðuna á Garðvangi. Lagðar hafa verið fram áætlanir um endurbætur sem nema um 4-500 milljónum króna, ef sú aðstaða á að vera viðunandi. Mun ódýrara er að gera aðstöðuna á Hlévangi viðunandi og áætlun fyrir nauðsynlegum úrbótum liggur fyrir sem nemur 30 milljónum króna.

Hugmyndir höfðu verið lagðar fram um að færa hjúkrunarsjúklinga af Hlévangi í nýja húsnæðið að Nesvöllum. Eins og að framan greinir er verulegur munur á kostnaði við nauðsynlegar úrbætur á þessum tveimur starfsstöðvum.

Þar sem aðstaða að Hlévangi er mun betri en býðst á Garðvangi og Landlæknisembættið hefur, eins og áður segir, gert alvarlegar athugasemdir við aðstöðuna á Garðvangi, er ekki með nokkru móti forsvaranlegt annað en að færa sjúklinga af Garðvangi í nýja aðstöðu að Nesvöllum en nýta Hlévang áfram, þar til frekari uppbygging hjúkrunarrýma hefur átt sér stað að Nesvöllum. Af þessu leiðir að æskilegast er að á Nesvöllum verði stefnt að 90-120 rúma rekstrareiningu.
Þar með væri til framtíðar unnt að loka báðum rekstrareiningum að Hlévangi og Garðvangi og nýta húsnæðið til annars.

Rekstrarform
Hvernig ber að haga framtíðarrekstri hjúkrunaraðstöðu í Reykjanesbæ/Suðurnesjum?
Þegar rýnt er í rekstur DS hin síðari ár þá liggur fyrir að erfitt hefur reynst að láta enda ná saman og hefur oftar en ekki komið til aukafjárveitinga af aukafjárlögum til að brúa bilið. Í ár tókst það ekki og því þurftu eigendur DS að leggja um 15 milljónir króna til rekstursins þannig að hægt væri að loka árinu án taps. Það er því nokkuð ljóst að leita þarf leiða til að koma rekstrinum í betra horf og þá hefur fyrst og fremst verið horft til hagkvæmni stærðarinnar. Að mati þeirra sem hafa aflað sér hvað mestrar þekkingar og reynslu í rekstri hjúkrunarheimila þá þurfa heimilin að vera alla vega upp á 120 rúm eða meira þannig að ná megi hámarks hagkvæmni. Því liggur fyrir að sú rekstrareining sem myndi liggja fyrir DS með nýju hjúkrunarheimili og Garðvangi eða Hlévangi myndi vera undir þeim viðmiðunarmörkum. Því er nauðsynlegt að leita annarra leiða til að koma rekstrinum í það horf þar sem nýting fjármagns er hvað best.
Af þeim hjúkrunarrýmum sem er í notkun á Suðurnesjum, sér HSS (Heilbrigðisstofnun Suðurnesja) um rými á sjúkrahúsinu og í Víðihlíð (15-25 rými). DS (Dvalarheimili aldraðra Suðurnesjum) sér um rekstur Garðvangs og Hlévangs (68 rými). HSS er rekið af ríkinu en DS er félag í eigu Reykjanesbæjar, Garðs, Voga og Sandgerðis. Í samkomulaginu við ríkið um byggingu 60 rúma hjúkrunarheimilis að Nesvöllum er aðeins gert ráð fyrir 25 nýjum rýmum en hinn hlutinn komi annars staðar að úr húsnæði á vegum DS. Rætt hefur verið um að loka Hlévangi þess vegna.

Þrjár leiðir mögulegar:
Starfshópurinn sér þrjár leiðir mögulegar í framtíðarskipan öldrunarmála í Reykjanesbæ:

1. HSS hefur lagt fram hugmyndir til SSS um að taka yfir rekstur hjúkrunaraðstöðu á Suðurnesjum, þ.m.t. í nýju hjúkrunarheimili að Nesvöllum. Rekstrarleg hagræðing er talin mikil þar sem um væri að ræða nálægt 120 rúma einingu, sem rekin yrði af einum aðila. 68 hjúkrunarrými kæmu frá DS, 25 eru umsamin viðbót og frá Víðihlíð kæmu 18 rými. HSS sér í dag um heimahjúkrun, býður sjúkraþjálfun, heilsugæslu, sjúkrarými og sinnir margvíslegri læknisþjónustu.

2. Aðilar með mikla reynslu af rekstri stærri hjúkrunareininga kynnu að vera áhugaverðir samstarfsaðilar. Aðili með reynslu af einkarekstri á sviði hjúkrunarheimila hefur t.d. lagt fram hugmyndir um samrekstur hjúkrunarheimila sveitarfélaga, t.d. Hafnarfirði, Garðabæ og Reykjanesbæ, en þær hugmyndir eru skammt á veg komnar. Þær hugmyndir byggja þó á sama grunni að æskileg rekstrareining er 90-120 rúm. Þá hafa fleiri aðilar í rekstri spurst fyrir um hugmyndir Reykjanesbæjar varðandi rekstur nýja hjúkrunarheimilisins og er full ástæða til að skoða þær lausnir frekar.

3. Þá ber að nefna núverandi rekstrarfyrirkomulag á DS, þar sem 68 hjúkrunarrými eru rekin á tveimur stöðum að Garðvangi og Hlévangi. Gera má ráð fyrir að DS myndi þá taka að sér rekstur Nesvalla og sem samtals eru 90 rými og hugsanlega gætu bæst við hjúkrunarrýmin í Víðihlíð ef HSS legði þau til.
 

Úr skýrslu Landlæknis:


Húsnæði og aðbúnaður
Húsnæði Garðvangs er á einni hæð með 38 íbúa, 5 tvíbýli og 28 einbýli. Elsti hluti hússins var verbúð á árum áður og eru gangar þar þröngir, herbergin mjög lítil og hurðaop þröng og illmögulegt er að koma sjúkrarúmi eða stærri hjálpartækjum þar út eða inn. Nýrri álmur eru heldur rýmri en húsnæðið uppfyllir samt engan veginn þær kröfur sem gerðar eru til hjúkrunarheimila í dag. Gangar eru langir og þröngir og aðstaðan því ekki vænleg fyrir fatlaða. Salerni eru ekki í neinum herbergjum íbúa, eitt salerni er á gangi þar sem ellefu íbúar búa en tvö salerni á tveimur göngum af þremur þar sem níu manns búa, á þriðja ganginum er eitt salerni fyrir níu manns. Vegna þess hversu húsnæði Garðvangs er óhagstætt eru vinnuaðstæður starfsfólks erfiðar, vandkvæðum bundið að nota stærri hjálpartæki og illmögulegt að hafa yfirsýn. Aðeins eitt salerni er fyrir starfsfólk og gesti heimilisins og er það staðsett í enda nýjustu álmunnar.

Þar sem herbergi eru mjög lítil er ekki möguleiki fyrir íbúa að hafa hjá sér eigin muni nema í mjög litlum mæli. Ekki er aðstaða til að taka á móti gestum inni á herbergjum en ágætis aðstaða er í setustofum á Garðvangi.

Húsnæði Hlévangs er á tveimur hæðum með 30 íbúa, 24 einbýli með salerni og baðaðstöðu en hitt fjölbýli þar sem fólk deilir salerni og baði. Í nýrra rýminu þar sem einbýlin eru má segja að aðstaðan sé viðunandi og íbúar geta tekið á móti gestum í herbergjum sínum og hafa góða aðstöðu til að hafa hjá sér persónulega muni og húsgögn. Augljóslega eru minni möguleikar fyrir íbúa í fjölbýlum að hafa hjá sér persónulega muni og þeir geta ekki tekið á móti gestum í herbergjum sínum en geta sest niður með þeim í setkrókum og sólstofu. Tölvuaðstaða er fyrir íbúa í sólstofu og leikfimisalur í kjallara.

Ávallt er tekið tillit til athugasemda frá Vinnueftirliti og Heilbrigðiseftirliti þegar þær hafa borist og reynt að finna lausnir miðað við aðstæður.


Samantekt og tilmæli um úrbætur

Mönnun
Landlæknisembættið telur að fullnægjandi hjúkrun á hjúkrunarheimili verði fyrst og fremst tryggð með viðeigandi mönnun. Mönnun fagfólks við hjúkrun/umönnun á heimilum D. S. er komin að þolmörkum og er ekki ásættanleg. Embættið telur að öryggi íbúa kunni að vera stofnað í hættu vegna ónógrar mönnunar, einkum í ljósi þess að margir íbúanna eru með heilabilunar- og/eða geðsjúkdóma og þurfa því mikla vöktun.


Flutningur íbúa á heimilið
Verklag við inntöku íbúa á heimilið er í lagi en þó mætti huga að því að hafa íbúana sjálfa meira með í ráðum.

Þjálfun/virkni og sálgæsla
Virkni og félagsstarf er í góðu lagi. Hvorki er starfandi sjúkraþjálfari né iðjuþjálfi við heimilið.

Fæði og mötuneyti
Í góðu lagi.

Öryggi og eftirlit
Athygli vekur að framkvæmdastjórn metur öryggi íbúa í Garðvangi mun lægra en æskilegt væri og gefa öryggiseinkunnina 5 á skalanum 0-10. Skýring þeirra á lágri öryggiseinkunn er að erfitt sé um vik að hafa yfirsýn með starfseminni bæði vegna húsnæðisaðstæðna og manneklu. Þetta er ekki viðunandi að mati Landlæknisembættisins og þarf sem fyrst að grípa til úrbóta. Töluvert vantar á, a.m.k. formlega, að kröfum sé fullnægt, svo sem verklagsreglur um um vinnuvernd starfsmanna, skv. reglugerð nr. 920/2006 um áhættumat og forvarnir. Brýnt er að bæta úr því.

Gæðastarf
Góðar verklagsreglur/gátlistar varðandi ýmsa þætti hjúkrunar og umönnunar eru aðgengilegar, svo sem varðandi byltuvarnir, lyfjagjafir og fleira en heildstæð gæðahandbók er ekki til. Gæðavísar úr RAI mati koma ekki vel út á heimilum D.S. og þá sérstaklega ekki á Garðvangi. Gæðavísar eru ákveðnar vísbendingar um hversu góða hjúkrun/umönnun íbúinn fær og geta gefið starfsfólki og stjórnendum hjúkrunarheimila upplýsingar um það sem vel er gert eða það sem betur má fara. Hjúkrunarheimili sem hefur tíðni svo margra gæðavísa yfir efri viðmiðunarmörkum eins og raunin er á Garðvangi þarf að taka slíkar vísbendingar til gaumgæfilegrar athugunar.


Almennt um húsnæði og aðstöðu
Hvorki Garðvangur né Hlévangur uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til húsnæðis hjúkrunarheimila í dag enda húsin ekki hönnuð í þeim tilgangi. Það er mat Landlæknisembættisins að Garðvangur sé allsendis ófullnægjandi húsnæði fyrir hjúkrunarheimili og leggur embættið áherslu á að sem allra fyrst verði leitað leiða til að leysa þann vanda.

Almennt um hjúkrunarheimili D.S.
Augljóst er að starfsfólk lætur sér annt um vellíðan og velferð íbúanna á heimilum D.S. þrátt fyrir mjög erfið starfsskilyrði, sérstaklega á Garðvangi. Að öðru leyti vísast í það sem segir hér að ofan um gæðamál og öryggi íbúa. Landlæknisembættið þakkar fyrir góða samvinnu við gerð úttektarinnar og væntir þess að niðurstöður hennar nýtist í umbótastarfi.