Stefna á að ljúka framkvæmdum á undan áætlun
Seinni áfangi við tvöföldun Reykjanesbrautar gengur vel og bendir allt til þess að framkvæmdum muni ljúka mun fyrr heldur en áætluð verklok segja til um. Þetta segir Ólafur Þór Kjartansson, framkvæmdastjóri Jarðvéla ehf, sem er verktaki framkvæmdanna, ásamt Eykt.
Hjá Jarðvélum eru menn ekki alls óvanir þegar Reykjanesbrautin er annars vegar, því fyrirtækið sá einnig um tvöföldun hennar í fyrri áfanga, ásamt Háfelli og Eykt.
Að sögn Ólafs Þórs mega vegfarendur búast við að sjá meiri kraft í framkvæmdunum þegar nær dregur næsta vori en þá er ráðgert að setja aukin tækjakost í verkið þegar losnar um um hann úr öðrum verkefnum sem klárast og segir Ólafur að stærsti hluti tækjakosts og mannafla fyrirtækisins verði þá kominn á Suðurnesin.
Ólafur segir verkið á áætlun og að menn hafi fullan hug á að ljúka framkvæmdunum við tvöfölduna mun fyrr en áætluð verklok gera ráð fyrir, sem er 1. júní 2008. Ólafur vildi ekki gefa upp neinar tímasetningar þar að lútandi en gat þess að ljúki framkvæmdunum innan ákveðins tímaramma, fái verktakinn aukaþóknun eða flýtifé og að því væri stefnt.
Tvöföldunin í seinni áfanga nær yfir tæplega 13 km langan vegarkafla frá Strandarheiði að Njarðvík. Samhliða tvöfölduninni er gert ráð fyrir átta brúm á þessum kafla.
Mynd: Frá framkvæmdunum á Reykjanesbraut.
VF-mynd: Ellert Grétarsson