Stefán í Einhamar Seafood á fullu með snyrtihnífinn
Það var líf og fjör í Einhamar Seafood í morgun þegar blaðamann bar að garði, vinnsla var á fullu á afla sem Vésteinn landaði á sunnudaginn. Forstjórinn Stefán Kristjánsson lét ekki sitt eftir liggja, var á fullu að forsnyrta þorskflökin áður en þau fóru í beinskurð.
„Mér finnst gott að grípa stundum í hnífinn, ég er vanur þessum vinnubrögðum síðan ég vann á frystitogurum hér áður fyrr. Það er nauðsynlegt að fara stundum í grunninn, ég mér finnst þetta gaman og svona tengist ég starfsfólkinu betur. Við erum að forsnyrta flökin en beinskurðurinn fer síðan fram í sérhannaðri vél, þannig verður nýtingin á flökunum margfalt betri. Það er gott að þetta sé komið af stað aftur, ég var búinn að bíða eftir þessu. Ég vil trúa að aðilar séu búnir að læra af þessum eldgosum til þessa, það þarf ekki að setja allt í lás svo vikum skiptir þegar eldgos er búið, það er nánast hægt að hefja störf daginn eftir. Við tókum viðbragðsæfingu í gær og gekk hún mjög vel. Á fáeinum mínútum vorum við komin upp á Nesveg. Nú vinnum við þetta með yfirvöldum og byggjum bæinn upp hægt og örugglega. Jæja, hættu nú að trufla mig,“ sagði Stefán og hélt snyrtingunni áfram.