Starfsmenn VL: Útséð með starfslokasamninga
-þrálátur orðrómur kveðinn niður þess efnis að starfsmannahald VL hafi stöðvað málið.
Útséð er með að íslenskir starfsmenn Varnarliðsins fái starfslokasaminga. Á meðal þeirra hefur verið óánægja með að íslenska samninganefndin hafi ekki beitt sér fyrir því í viðræðunum um viðskilnað VL að gerðir yrðu starfslokasamningar við þá.
Sá orðrómur hefur verið á kreiki að Varnarliðið hafi verið búið að áætla ákveðna fjárhæð í starfslokasaminga en starfsmannahaldið hafi sett sig upp á móti því og stöðvað málið. Utanríkisráðuneytið mun hafa kannað málið og komist að því að þessi orðrómur átti ekki við rök að styðjast.
Stóð aldrei til að gera starfslokasamninga
„Við í samráðsnefndinni óskuðum eftir því við Utanríkisráðuneytið að kannað yrði hvort þessi orðrómur ætti við rök að styðjast, sem það og gerði. Niðurstaðan varð sú að Varnarliðið hafi ekki áætlað neina fjármuni í starfslokasamninga umfram það sem kjarasamningar segja til um.
Samkvæmt þessu virðist þessi orðrómur ekki á rökum reistur og yfirvöld hafa jafnframt vísað því að bug að það taki að sér að gera þessa starfslokasaminga. Geir Haarde gaf það skýrt í skyn á starfsmannafundinum í Fjölbrautaskólanum fyrir kosningarnar í vor,“ sagði Guðbrandur Einarsson, formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja, í samtali við VF en hann á sæti fyrir hönd félagsins í samráðsnefndinni sem í sitja fulltrúar sveitarstjórna og ríkisvaldsins og skipuð var í vor þegar ljóst var að Varnarliðið ætlaði af landi brott.
Útistandandi launakröfur verða greiddar
Kristján Gunnarsson, formaður VSFK, segir að fulltrúi ríkisins í samráðsnefndinni muni hafa látið í það skína að möguleiki væri á starfslokagreiðslum í einhverri mynd en síðar hafi því verið algjörlega hafnað af hálfu Bandaríkjamanna sem hafi talið sig vera að greiða meira en þeim bar skylda til að gera, samkvæmt samningum.
„Starfsmannahaldið hefur einfaldlega ekkert um þetta að segja lengur en hins vegar voru þeir að fá samþykki fyrir því frá yfirstjórn fjármála hersins að greiða upp allar útistandandi launakröfur. Í því felst meðal annars 2% starfsmenntagjald sem við höfðum verið að eltast við, kauphækkanir sem vantaði hjá sumum vegna sveitarstjórnarsamninganna, 15 þúsund króna júlí-hækkunin og ýmislegt fleira sem við höfum verið að ýta á eftir. Þeir eru búnir að samþykka að greiða allar slíkar kröfur en aðrar greiðslur virðast ekki hafa verið í farvatninu í viðræðum samninganefnda ríkjanna um við viðskilnað Varnarliðsins. Ég hélt reyndar að þær viðræður hefðu átt að snúast um hvað þeir áttu að greiða okkur Íslendingum en ekki öfugt,“ sagði Kristján Gunnarsson.
Texti: Ellert Grétarsson [email protected]