Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Starfsmenn telja flugöryggi ógnað með breytingum á deildinni
Fimmtudagur 17. febrúar 2005 kl. 14:56

Starfsmenn telja flugöryggi ógnað með breytingum á deildinni

Óttast er að flugöryggi á Keflavíkurflugvelli sé ógnað ef skipulagsbreytingar varðandi snjómokstur á flugbrautum verða að veruleika. Í skipulagsbreytingunum er gert ráð fyrir að starfsemi flugþjónustudeildar slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli sem sér um snjóruðning og hreinsun flugbrauta Keflavíkurflugvallar verði færð undir vélamiðstöð Varnarliðsins (public works) þar sem starfsemi deildarinnar verður stjórnað. Mikil ólga er meðal starfsmanna deildarinnar varðandi fyrirhugaðar breytingar.
Starfsmenn flugþjónustudeildarinnar eru uggandi um starfsemi deildarinnar og segja að með breytingunum sé flug- og flugrekstraröryggi á Keflavíkurflugvelli ógnað. Starfsmenn flugþjónustudeildar eru nú 46 talsins en þar af hefur 4 verið sagt upp störfum. Fyrir rúmu ári síðan voru starfsmennirnir tæplega 60.
„Starfsmenn deildarinnar eru auðvitað uggandi um sinn hag og óttast uppsagnir. En við erum einnig uggandi um flugöryggi á Keflavíkurflugvelli því fyrirhugaðar breytingar ógna öryggi vallarins. Það eru klárar línur í því,“ segir Emil Georgsson vaktstjóri flugþjónustudeildar slökkviliðsins í samtali við Víkurfréttir.
Að sögn Emils er þekking á brautum og flugvallarsvæðinu, auk áratuga þjálfunar flestra starfsmanna deildarinnar hennar helsti styrkleiki. „Fólk verður að átta sig á því að í deildinni er starfsaldur hár og þar eru starfsmenn með gífurlega reynslu hvað varðar snjómokstur og hreinsun brautanna.“
Starfsmenn flugþjónustudeildarinnar taka einnig þátt í hópslysaáætlun á Keflavíkurflugvelli ef flugslys verður eða stórbruni. „Við erum með þeim fyrstu á staðinn ef flugslys verður ásamt slökkviliðinu og við höfum verið þjálfaðir upp fyrir slík atvik,“ segir Emil.

Mynd: Snjóruðningstæki að störfum á Keflavíkurflugvelli í gær. VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024