STARFSMENN KOMU Í VEG FYRIR STJÓRTJÓN
Starfsmenn Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur komu í veg fyrir stjórtjón þegar eldur kom upp í vélarrúmi Sigþórs ÞH 100 í nýju skipaskýli stöðvarinnar um síðustu helgi. Starfsmennirnir lokuðu öllum loftopum að vélarrúminu og komu þannig í veg fyrir að eldurinn bærist um skipið. Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja var kallað til og réðust reykkafarar gegn eldinum, sem reyndist ekki vera mikill. Var eldurinn fljótt slökktur og var skipið reykræst. Fór betur en á horfðist og þakkar slökkviliðið það réttum viðbrögðum starfsmanna slippsins. Tjón er óverulegt og viðgerð á skipinu mun ekki tefjast um marga daga. Eldsupptök urðu í olíu á gólfi í vélarrúmi.