STARFSMAÐUR ÍSLANDSBANKA HÆTTUR STÖRFUM
Dramatíkin við handtöku Nígeríumannsins í Flugstöð Leifs Eiríkssonar síðasta mánudag sem sveik út 11,2 milljónir út úr Íslandsbanka hefði mögulega engin orðið ef vinnubrögð starfsmanna Íslandsbanka í Keflavik verið rétt. Helgi Magnús Gunnarsson hrl., fulltrúi efnahagsbrotadeildar R.L.S, sagði að vegna ábendingar Landsbanka Íslands síðasta föstudag og upplýsinga þaðan um að Nígeríumaðurinn væri að taka umtalsverðar fjárhæðir út á mánudag hefði verið kannað hjá Tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli hvort maðurinn ætti bókað far erlendis. Það hefði reynst vera raunin og hann því handtekinn vegna gruns um að þarna gæti verið um ólöglega ágóða af refsilagabroti að ræða. Að sögn Helga Magnúsar neitar Nígeríumaðurinn allri sök og telur sig hafa verið blekktan í viðskiptum. Fyrirtæki það sem maðurinn starfaði hjá er ekki grunað um aðild að málinu. Þá hefur verið staðfest að allar ávísanirnar sem maðurinn leysti út eða reyndi að leysa út eru falsaðar. Þykir ljóst að ef starfsmenn Íslandsbanka í Keflavík hefðu staðið sig í stykkinu þá hefði verið hægt að bregðast mun fyrr við meintum brotum mannsins en enn vantar talsvert upp á að þær 9 milljónir sem maðurinn leysti út í reiðufé séu komnar í leitirnar.Sigurveig Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslandsbanka, sagði starfsreglur bankans hafa verið brotnar sem litið væri alvarlegum augum innan bankans. Reglan væri sú að erlendir tékkar væru ekki keyptir án samþykkis útibússtjóra og þá einungis ef um trausta viðskiptavini bankans væri að ræða. Sigurveig sagði Nígeríumanninn hafa gert misheppnaðar tilraunir til að selja ávísanir í tveimur öðrum útibúum Íslandsbanka. Hún sagði viðkomandi starfsmann hafa sagt upp störfum, hann væri ekki grunaður í þátttöku í brotinu en honum hefðu orðið á alvarleg mistök í starfi.