Starfsgreinasambandi tekur undir kröfur Suðurnesjamanna
Starfsgreinasambandið tekur heils hugar undir kröfur Suðurnesjamanna og minnir á ályktun þings sambandsins frá því í október s.l. þar sem lýst er yfir þungum áhyggjum af stöðu efnahags- og atvinnumála hér á landi. Afar brýnt er að ljúka erfiðum málum eins og Icesave og mikilvægt er einnig að ríkisstjórnin sýni að henni sé alvara í því að efla hér atvinnu með því að stuðla að fjárfestingum í atvinnulífinu. Þetta kemur fram á vef Starfsgreinasambandsins nú í morgun.
Þverpólitísk Keflavíkurganga var farin í gær um Reykjanesbraut frá Vogum að Kúagerði þar sem fundur var haldinn til að krefst þess að stjórnvöld gangi í takt við Suðurnesjamenn um atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Fundarboðendur, fulltrúar stéttarfélaganna á Suðurnesjum og sveitarfélaga á svæðinu vilja koma af stað vitundarvakningu um stöðu atvinnumála á Suðurnesjum. Þar eru nú rúmlega 1600 manns án atvinnu og er atvinnuleysið mest meðal félaga VSFK, rúmlega 16%, meðan atvinnuleysi á landsvísu er 7,8%.
Páll Rúnar Pálsson flutti ávarp fyrir hönd atvinnulausra þar sem hann lýsti bæði vonleysi og vonum atvinnulausra og afhenti fulltrúum stjórnmálaflokkanna áskorun um að ganga í takt við Suðurnesjamenn. Tækifærin væru þrátt fyrir allt fyrir hendi ef menn gengju í takt.
Það mundi draga mjög úr atvinnuleysi á Suðurnesjum strax ef framkvæmdir gætu hafist af fullum krafti við álverið í Helguvík, segir jafnframt á vef Starfsgreinasambandsins. Þar liggja á borðinu rúmlega 4000 ársverk við byggingarframkvæmdir sem taka fjögur til sex ár. Það munar um minna. „Það er þess vegna ekki ásættanlegt að ráðherrar í ríkisstjórninni vinni gegn Stöðugleikasáttmálanum og leggi steina í götu stórframkvæmda sem þegar liggja á borðinu,“ segir Skúli Thoroddsen í pistlinum á vefnum.
„Umhverfisráðherra hefur með töfum sínum í Helguvíkurmálinu sett það verkefnið í óvissu. Umhverfisráðherra gengur ekki í takt, hvorki við væntingar Suðurnesjamanna né við áherslur aðila vinnumarkaðarins. Ráðherrann setur tímaáætlanir verkþátta og fjármögnun Helguvíkurverkefnisins í uppnám. Álverið í Helguvík sem er fjárfesting í erlendum gjaldeyri mun skapa 650 störf til langs tíma að framkvæmdatíma loknum. Ríkisstjórnin verður að sjá til þess að það verði“.