Starfsgreinakynning fyrir grunnskólanemendur
Starfsgreinakynning fyrir grunnskólanemendur á Suðurnesjum hefur verið haldin reglulega frá árinu 2012. Markmið kynningarinnar er að efla starfsfræðslu og menntun grunnskólanemenda. Hún er einnig mikilvægur þáttur í því að auka starfsvitund og skerpa á framtíðarsýn ungs fólks.
Kynningunni er sérstaklega beint að eldri nemendum grunnskólanna, meðal annars vegna þess að hlutfall þeirra 10. bekkinga sem halda áfram námi að loknum grunnskóla er lægra á Suðurnesjum en annars staðar á landinu. Á kynninguna koma þó einnig nemendahópar úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Í ár er kynningin hluti af Sóknaráætlun Suðurnesja 2015-2019 og haldin af Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum sem fékk Þekkingarsetur Suðurnesja til að halda utan um verkefnið.
Kynningin hefur tekist vel síðustu ár og skipuleggjendur hennar hafa fundið fyrir ánægju meðal skólanna sem taka þátt og þeirra sem taka að sér að kynna störf sín. Sérstaklega ber að þakka þeim einstaklingum og fyrirtækjum sem tekið hafa þátt í kynningunni en sömu aðilar hafa gert það ár eftir ár, jafnvel þó að þetta sé allt unnið í sjálfboðavinnu. Án þessarar miklu velvildar atvinnulífsins á svæðinu væri ómögulegt að halda kynningu sem þessa.
Í ár verður starfsgreinakynningin haldin þriðjudaginn 11. október frá kl. 9 - 12 fyrir nemendur 8. og 10. bekkjar og stendur nú yfir leit að þátttakendum. Markmiðið er að á kynningunni verði að finna að minnsta kosti 100 ólíkar starfsgreinar af öllu tagi. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt og kynna sína starfsgrein mega endilega senda póst á netfangið [email protected] eða hringja í síma 423-7555.