Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Starfsemi í Festi tilkynnt til sýslumanns og lögreglu
Fimmtudagur 12. janúar 2023 kl. 11:32

Starfsemi í Festi tilkynnt til sýslumanns og lögreglu

Skipulags- og byggingarfulltrúa Grindavíkurbæjar hefur verið falið að upplýsa sýslumann og lögregluyfirvöld um að starfsemi kunni að vera hafin þrátt fyrir að ekki rekstrarleyfi hafi ekki verið gefið út. Bæjarráð Grindavíkurbæjar fundaði í gær og eitt af þeim málum sem þar voru til umfjöllunar voru málefni Vinnumálastofnunar og starfsemi V58, sem er hótelið í gamla Festi í Grindavík. Farið hefur verið fram á fund með Vinnumálastofnun í lok vikunnar til að fara yfir málið. Sviðsstjóri félagsþjónustu- og fræðslusviðs sat fundinn undir þessum dagskrárlið. Lögmaður Grindavíkurbæjar sat einnig fundinn í gegnum fjarfundarbúnað.

Bæjarráð lagði fram eftirfarandi bókun á fundinum:

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fyrir liggur tölvubréf Vinnumálastofnunar, dags. 23. desember sl., vegna málsins þar sem eftirfarandi kemur fram:

„Líkt og við tókum fram á fundinum með ykkur þá hefur Framkvæmdasýslan / Ríkiseignir staðfest við okkur að það sé lögfræðilegt mat þeirra að aðal- og deiluskipulag meini ekki nýtingu húsnæðisins í þeim tilgangi sem ætlaður er af okkar hálfu. Enn fremur þá ítreka ég það sem kom fram að þetta er eina húsnæðið sem er fast í hendi í dag til þess að mæta brýnni húsnæðisþörf Vinnumálastofnunar vegna búsetu umsækjenda um alþjóðlega vernd. Það liggur fyrir að stofnunin þarf að afla um 500 rýma á fyrstu tveimur til fjórum mánuðum næsta árs til að mæta fyrirséðri aukningu í fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd og til að koma í stað þess húsnæðis sem ekki fæst framlengd leiga á í upphafi næsta árs.

Vinnumálastofnun er því nauðsyn, í þeirri þröngu stöðu sem nú er uppi, að taka húsnæðið í notkun í upphafi næsta árs þrátt fyrir afstöðu bæjarstjórnar.
Vinnumálastofnun mun leggja áherslu á að sá hópur umsækjenda sem búsettur verður í sveitarfélaginu setji sem minnst álag á félagslega innviði samfélagsins enda ber stofnunin ábyrgð á að þjónusta þá meðan þeir bíða úrlausnar á umsókn sinni um alþjóðlega vernd hjá Útlendingastofnun. Stofnunin mun, til þess að gera sitt til að tryggja að svo verði, vera með aukna viðveru starfsmanns á staðnum umfram hefðbundna viðveru í búsetuúrræðum hjá stofnuninni.“

Það er bæjarráði mikil vonbrigði að Vinnumálastofnun skuli ekkert hafa gert með afgreiðslu bæjarstjórnar, sem byggði á lögfræðiáliti, um að útleiga hússins fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd eða flóttamenn samræmist ekki samþykktri notkun hússins eða deiliskipulagi.

Samkvæmt upplýsingum sveitarfélagsins mun starfsemi þegar vera hafin í húsnæðinu.

Skipulags- og byggingarfulltrúa er falið að óska upplýsinga um málið frá Vinnumálastofnun og húseiganda og skoða í kjölfarið hvort tilefni geti verið til að beita heimildum skv. 55. og 56. gr. laga um Mannvirki nr. 160 frá 2010 eða ákvæðum 54. gr. skipulagslaga nr. 123 frá 2010.

Skipulags- og byggingarfulltrúa er einnig falið að upplýsa sýslumann og lögregluyfirvöld um að starfsemi kunni að vera hafinn þrátt fyrir að rekstrarleyfi hafi ekki verið gefið út.

Bæjarráð mun óska eftir fundi með Vinnumálastofnun í lok vikunnar til að fara yfir málið.