Starfsemi hefst að nýju á skurðdeild HSS
– gera aðgerðir á fólki vegna yfirþyngdar
Starfsemi hefst að nýju á skurðdeild HSS á morgun, föstudaginn 22. maí. Stofnunin hefur gert samning við fyrirtækið Gravitas, sem Auðun Sigurðsson skurðlæknir rekur, en Auðun hefur sérhæft sig í aðgerðum vegna yfirþyngdar. Þetta kemur fram á vef Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.
Samningur HSS og Gravitas er tímabundinn og nær til loka september á þessu ári. Gravitas leggur til starfsfólk á sjálfa skurðstofuna, en HSS til annarra verka, m.a. í móttöku, skráningu, vöknun, sótthreinsun o.fl.
Að undanförnu hefur starfsfólk HSS unnið að undirbúningi þessarar starfsemi og öll aðstaða, tæki og búnaður hefur verið yfirfarin.
„Það er ánægjulegt að sú aðstaða sem HSS hefur til skurðstarfsemi skuli nú vera tilbúinn til notkunar að nýju. Við væntum þess að framhald verði á starfsemi á skurðstofum HSS og þessi samningur verði grunnur að enn frekari starfsemi þar,“ segir Halldór Jónsson, forstjóri HSS.