Stapi: Breytt í rekstrarfélag inn í Fasteign hf
Eignarhlutur Reykjanesbæjar í Stapanum verður settur inn til Fasteingar hf. UMFN, Kvenfélag Njarðvíkur og Skátafélagið Víkverjar hafa einnig samþykkt að breyta eignarhaldsfélagi Stapans í rekstrarfélag og leggja sinn eignarhluta að húsi og lóð til Fasteignar hf. vegna undirbúnings að tónlistarhúsi og svæði eldri borgara. Eignarhlutur Reykjanesbæjar er 33% af 121 milljón króna sem er heildarverðmæti Stapans.
Meirihluti bæjarráðs samþykkti á fundi sínum í gær tillögu bæjarstjóra þar sem fram kemur að í samningi eignaraðila verði gert ráð fyrir því að Fasteign hf. afsali sér eignarlóðum Stapans til Reykjanesbæjar án endurgjalds. Þær muni bæði nýtast sem leigulóðir undir fyrirhugaðan tónlistarskóla og þjónustusvæði eldri borgara, Nesvelli.
Kjartan Már Kjartansson, (B) lagði til að málinu yrði frestað til næsta fundar. Tillögunni var hafnað með þrem atkvæðum meirihlutans gegn tveim atkvæðum minnihlutans, sem lagði fram eftirfarandi bókun :
Ástæða þess að við greiðum atkvæði gegn tillögu sjálfstæðismanna er sú að við teljum að bæjarstjóri keyri þetta mál áfram án samráðs og vitundar þess stýrihóps sem settur var á laggirnar til þess að koma fram með tillögu um byggingu væntanlegs tónlistarskóla. Við hefðum talið eðlilegt að fá að sjá samþykktir annarra eignaraðila um verð og að aðrir kostir yrðu skoðaðir.
Meirihlutinn lagði fram eftirfarandi bókun :
Ákvörðun þessi snýr ekki að Tónlistar- og ráðstefnumiðstöð sérstaklega. Það mál hefur verið kynnt sérstaklega í Fræðsluráði og fyrir stjórnendum og starfsfólki Tónlistarskóla Reykjanesbæjar sem lýst hafa mikilli ánægju með hugmyndafræði Tónlistarskólans og tengingu við Stapann. UMFN, Kvenfélag Njarðvíkur og Skátafélagið Víkverjar hafa samþykkt málið fyrir sitt leyti.