Stanslausir flutningar í alla nótt
Vörubílstjórar Íslenskra aðalverktaka hafa í nógu að snúast í alla nótt. Þeir standa nú fyrir lest vörubíla milli Helguvíkur og Keflavíkurflugvallar, þar sem þeir flytja 25.000 tonn af steinefnum fyrir malbikunarstöð ÍAV. Efnið verður meðal annars notað við malbikun flugbrauta á Keflavíkurflugvelli í sumar.Efnið er flutt til Helguvíkur frá Noregi með 166 metra löngu skipi sem ristir að auki rúma tíu metra niður. Skipið er búið fullkomnum losunarbúnaði þannig að grjótinu er dælt upp á bryggju í Helguvík og þaðan mokað á bíla. Búist er við að það taki 12-15 tíma að losa skipið en með fullum afköstum getur dælubúnaður skipsins losað það við 3000 tonn af steinefnum á klukkustund. Það voru líka myndarleg fjöll sem mynduðust í nótt við Helguvíkurhöfn, en þeim var ekið á brott jafnharðan.