Stal Magga mörgæs og Mikka mús eftir að taka tekið inn Rivolintöflur
Karlmaður var í héraðsdómi Reykjaness dæmdur í fimm mánaða fangelsi fyrir innbrot í hús í Höfnum í Reykjanesbæ. Stal hann meðal annars fartölvu, myndavélum og tveimur sparibaukum, þeim Magga mörgæs og Mikka mús. Maðurinn var á skilorði en hann hefur hlotið fjölmarga refsidóma frá árinu 1979.
Maðurinn neitaði sök en viðurkenndi að hafa farið inn í húsið með félaga sínum umrætt kvöld. Hann hélt hinsvegar að félaginn byggi í húsinu og þeir væru að ná í eigur hans til þess að koma í verð. Rétt áður en þeir fóru í leiðangurinn tóku þeir inn Rivolintöflur og af þeim sökum hefði hann verið utan við sig og munað lítið eftir atvikinu.
Á eldhúsborði hússins var Vodka Smirnoff peli, sem var í eigu heimilisfólks og hafði verið uppi í hillu. Drukkið hafði verið úr pelanum og hann skilinn eftir á borðinu. Að sögn húsráðenda var eftirtalinna muna saknað:
1 Dell D-620 fartölva ásamt spennugjafa,
1 HP NX-9000 fartölvu ásamt spennugjafa,
2 Canon myndavélum,
1 harður tölvudiskur, flakkari, ásamt spennugjafa,
2 sparibaukar, annar Maggi mörgæs og hinn Mikka mús dós,
1 GSM farsími af gerðinni Nokia 3100.
Maðurinn var eins og fyrr segir dæmdur í fimm mánaða fangelsi en hann hefur hlotið fjölmarga dóma frá árinu 1979 og var á skilorði.
Vísir.is greinir frá þessu.