Stal eldavél nágrannans
Íbúi í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum kom á lögreglustöð og tilkynnti að eldavél, sem hann hafði tekið úr íbúð sinni vegna breytinga innan stokks, hefði verið stolið af lóðinni. Kvaðst hann hafa sett hana þar til bráðabirgða, ásamt fleiru, þar á meðal baðkari.
Karlmaður sem bjó skammt frá var grunaður um stuldinn. Lögregla bankaði upp á hjá honum og það stóð heima; þar var eldavélin niðurkomin. Lögreglan las manninum, sem er á fimmtugsaldri, pistilinn. Hann vissi upp á sig skömmina og lofaði að gera svona nokkuð aldrei aftur.