Fréttir

Stal bíl og klessukeyrði á Vesturgötu - myndir
Föstudagur 17. apríl 2015 kl. 11:00

Stal bíl og klessukeyrði á Vesturgötu - myndir

Karlmaður var handtekinn í Keflavík aðfararnótt þriðjudags eftir að hafa tekið bifreið ófrjálsri hendi við verslun 10-11 á Hafnargötu. Ökuferðin endaði við gatnamót Vesturgötu og Krikjuvegar í hörðum árekstri.

Eigandi bifreiðar hafði brugðið sér inn í verslunina 10-11. Bifreiðin var skilin eftir í gangi fyrir utan verslunina og það nýtti óprúttinn aðili sér  og stal bílnum.

Örskömmu síðar barst lögreglunni á Suðurnesjum tilkynning um mjög harðan árekstur á Vesturgötu við Kirkjuveg þar sem bifreið var ekið á aðra kyrrstæða. Um var að ræða hörkuárekstur þar sem báðar bifreiðar skemmdust mikið.

Lögreglumenn voru rétt komnir á vettvang þegar tilkynnt var um þjófnað á bifreið við 10-11 en ökumaður stolnu bifreiðarinnar varð valdur að árekstrinum á Vesturgötu. Hann hljóp í burtu af vettvangi en lögreglumenn höfðu upp á honum skömmu síðar.

Enginn var í kyrrstæða bílnum en ökumaður stolna bílsins hlaut áverka sem þó teljast minniháttar.

Meðfylgjandi ljósmyndir tók vegfarandi á vettvangi aðfararnótt þriðjudags. Eins og sjá má á myndunum var aðkoman að árekstrinum ljót og eignatjón mikið.









Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024