Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Stakk göt á fimmtán hjólbarða
Miðvikudagur 26. desember 2007 kl. 03:33

Stakk göt á fimmtán hjólbarða

Tjónið sem rússneskur karlmaður um þrítugt vann við lögreglustöðina í Keflavík er meira en í fyrstu var talið. Þegar líða tók á gærdaginn kom í ljós að göt höfðu verið stungin á fimmtán hjólbarða á fimm lögrelgubílum. Í fyrstu var talið að götin væru átta, en nokkur þeirra voru minni, þannig að loftið fór hægar úr dekkjunum.

Lögreglan á Suðurnesjum var í gær að útvega bráðabirgðadekk undir bílaflotann sinn, þannig að hægt verði að nota bílana í útköll. Rússanum var sleppt í gær en hann verður yfirheyrður nánar á næstu dögum.

Forsaga málsins er sú að skömmu eftir miðnætti á aðfangadagskvöld stöðvaði lögreglan karlmann fyrir ölvun við akstur. Hann var færður til lögreglustöðvar til skýrslutöku og jafnframt voru tekin úr honum blóðsýni. Síðar um nóttina veittu lögreglumenn því athygli að göt höfðu verið stungin á hjólbarða lögreglubíla sem stóðu utan við lögreglustöðina. Spor voru rakin í nýföllnum snjónum frá lögreglubílunum og að heimili mannsins. Maðurinn hafði ætlað sér að fela slóð sína með því að fara úr skónum síðustu metrana áður en hann kom til síns heima. Þau spor sem maðurinn skildi þannig eftir sig voru ekki síður áberandi en skóförin. Maðurinn var því handtekinn. Hann neitaði við yfirheyrslur að vera valdur að eignatjóninu.

Tjónið sem maðurinn olli hleypur á hundruðum þúsunda króna. Þannig kosta dekkjagangar undir tvo stærstu lögreglubílana um 400 þúsund krónur. Að öllum líkindum verður að skipta um alla hjólbarðana undir öllum lögreglubílunum, því um bifreiðar til neyðaraksturs er að ræða og því engin áhætta tekin með bætur á sprungin dekk.

Erfitt er að geta sér til um það hvað Rússanum gekk til á jólanótt. Eitthvað hefur hann verið bitur í garð lögreglunnar sem gerði það eina rétta að stöðva frekari för ölvaðs ökumanns í umferðinni.


Mynd: Lögreglubílar með sprungin dekk framan við lögreglustöðina í Keflavík í gærmorgun. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024