Stærstur hluti sjúkrahúsúrgangs brenndur á Suðurnesjum
Sorpeyðingarstöð Suðurnesja hefur gegnt stóru hlutverki í brennslu sjúkrahússúrgangs á Íslandi, en meginþorri slíks úrgangs kemur til brennslu hjá Sorpeyðingarstöðinni. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hefur gert athugasemdir við förgun sjúkrahúsúrgangs frá heilbrigðisstofnunum þar sem nefndin telur að Sorpeyðingarstöðin á Suðurnesjum uppfylli ekki kröfur um förgun á slíkum úrgangi. Á Íslandi er enginn urðunarstaður með starfsleyfi til að urða sjúkrahúsúrgang frá heilbrigðisstofnunum nema hann sé meðhöndlaður sérstaklega og gerður óskaðlegur.Í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag svaraði Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra fyrirspurn frá Einari K. Guðfinssyni þingmanni Sjálfstæðisflokksins þar sem hann spyr m.a. um stöðu varðandi urðun sjúkrahúsúrgangs hér á landi. Í svari ráðherra segir m.a.: „Gengið er út frá því að með hugtakinu „sjúkrahússorp“ sé átt við sérstakan úrgang frá heil brigðisstofnunum sem hefur í för með sér meiri sýkingarhættu og hættu á meiðslum en annar úrgangur. Til þessa flokks heyrir sóttmengaður úrgangur, líkamsleifar, hvassir hlutir, lyfja úrgangur og frumubreytandi efni, sem geta haft stökkbreytingar í för með sér.“ Í svari ráðherra kemur einnig fram að yfirleitt sé úrgangur frá heilbrigðisstofnunum flokkaður og aðgreindur frá öðrum úrgangi en að það vanti upp á að hann sé flokkaður sem skyldi. Í svari ráðherra kemur einnig fram að sorpbrennsla Suðurnesja taki á móti stærstum hluta þessa úrgangs: „Á Suðurnesjum er gömul sorpbrennsla sem tekur á móti stærstum hluta þessa úrgangs en þar er ekki fullnægjandi förgun á sóttmenguðum úrgangi. Stefnt er að því að taka nýjan fullkominn brennsluofn í notkun á þar næsta ári,“ segir m.a. í svari ráðherra.
Sorpeyðingarstöð Suðurnesja er á undanþágu þangað til að ný brennslustöð verður tekin í notkun, sem samkvæmt áætlun verður 2004. Gerður var samningur milli Efnamóttökunnar hf. og Sorpstöðvar Suðurnesja fyrr á þessu ári sem felur í sér að Sorpstöðin tekur því aðeins við sérstökum úrgangi frá heilbrigðisstofnunum að Efnamóttakan sjái áður til þess að hann sé í viðunandi formi, t.d. með því að minnka magn plasts í honum.
Sorpeyðingarstöð Suðurnesja er á undanþágu þangað til að ný brennslustöð verður tekin í notkun, sem samkvæmt áætlun verður 2004. Gerður var samningur milli Efnamóttökunnar hf. og Sorpstöðvar Suðurnesja fyrr á þessu ári sem felur í sér að Sorpstöðin tekur því aðeins við sérstökum úrgangi frá heilbrigðisstofnunum að Efnamóttakan sjái áður til þess að hann sé í viðunandi formi, t.d. með því að minnka magn plasts í honum.