Stærsti verktakasamningur Grindavíkurbæjar
Þeir Róbert Ragnarsson bæjarstjóri Grindavíkur og Magnús Guðmundsson hjá Grindinni ehf. skrifuðu í dag undir samning vegna viðbygginga íþróttamannvirkja í Grindavík. Mun þetta vera stærsti verktakasamningur sem Grindavíkurbær hefur gert. Framkvæmdir hefjast strax í næstu viku en fyrsta skóflustungan verður formlega tekin á morgun. Frá þessu er greint á heimasíðu Grindavíkurbæjar.
Um er að ræða fyrsta áfanga í framtíðaruppbyggingu á íþróttasvæði Grindavíkur. Þar sem byggð verður aðstöða sem tengir saman nokkrar núverandi byggingar saman. Með endurskipulagningu og nýbyggingum á íþróttasvæði Grindavíkur er áætlað að bæta verulega aðstöðu til íþróttaiðkunar, keppnishalds og félagsstarfs í Grindavík.
Íþróttamiðstöð Grindavíkur er hugsuð sem öflug viðbót við íþróttamannvirkin á svæðinu. Byggingin er í raun miðstöð eða hjarta sem tengir saman íþróttahús, sundlaug og íþróttasvæði utanhúss. Byggingin mun örva samnýtingu og tengsl húsanna sem fyrir eru um leið og hún er mikilvæg viðbót í æskulýðs- og unglingastarfi bæjarins og aflgjafi fyrir almenna íþróttaiðkun.
Lægstbjóðandi var Grindin ehf. en tilboðið hljóðaði upp á kr. 596.430.369 eða 94,6% af kostnaðaráætlun.