Stærri þotur fýsilegri vegna takmarkana á Keflavíkurflugvelli
- að mati Icelandair og WOW
Forsvarsmenn íslensku flugfélaganna eru sammála um að þrengslin við Flugstöð Leifs Eiríkssonar auki þörf fyrir breiðþotur sem rúma fleiri farþega. Þetta kemur fram í frétt sem Túristi.is hefur tekið saman.
Árla dags, seinni partinn og í kringum miðnætti nær umferðin um Keflavíkurflugvöll hámarki og lausir brottfarartímar á þessum vinsælum dagspörtum eru uppbókaðir í sumum tilfellum. Ástandið er svipað við margar af stærstu flughöfnum Evrópu og N-Ameríku. Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, segir að vegna þessa séu stærri flugvélar forsenda fyrir því að fjölga farþegum. Í framtíðinni mun íslenska lággjaldaflugfélagið því byggja upp flugflota sem samanstendur af þotum sem taka 200 til 350 farþega.
Asíuflug er ekki aðalatriði
Í vor tók Icelandair í notkun tvær breiðþotur með sætum fyrir 262 farþega eða nærri helmingi fleiri farþega en rúmast í vélunum sem fyrir voru hjá flugfélaginu. Aðspurður segir Guðjón Arngrímsson, talsmaður Icelandair, að segja megi að samspil fjölgunar farþega og takmarkana á flugvöllum, þar á meðal Keflavíkurflugvelli, geri þess háttar þotur fýsilegri fyrir Icelandair í dag en til að mynda fyrir fjórum árum síðan þegar félagið pantaði 24 nýjar en mun minni Boeing þotur.
Guðjón vill ekki meina að helsti kosturinn við nýju breiðþoturnar sé sá að með þeim opnist tækifæri fyrir flug til fjarlægari landa, t.d. Asíu. „Það er ekki aðalatriði, en sá möguleiki er vissulega til staðar."
Vill ekki tjá sig um gagnrýni Skúla
Í viðtali við Morgunblaðið í gær var Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, m.a. spurður álits á skoðun Skúla Mogensen, forstjóra WOW, á flugflota Icelandair en í viðtali við Túrista sagðist hann ekki botna í þeirri stefnu samkeppnisaðilans að kaupa annars vegar tuttugu ára gamlar flugvélar og svo hins vegar nýjar þotur með færri sætum en núverandi vélar. Björgólfur sagðist hins vegar ekki tjá sig opinberlega um hvað aðrir stjórnendur gera eða gera ekki. Hann vill hins vegar meina að umræðan um aldur flugvéla Icelandair sé á villigötum. „Aldur og slit á flugvélum er mælt af flugtímum og lendingum. Við erum svo heppin hvað varðar leiðakerfi okkar að samsetningin í þessa veru er mjög góð. Lendingarnar eru hlutfallslega svo fáar að elstu 757-vélarnar eru aðeins hálfnaðar hvað líftíma varðar," sagði Björgólfur við Morgunblaðið.
Ekki gamlar í lendingum eða flugtímum talið
Samfara auknum umsvifum hefur Icelandair fest kaup á fjölda notaðra flugvéla síðustu ár og hefur nú 27 Boeing þotur á sínum snærum en þær voru 16 sumarið 2012. Sú spurning vaknar því hvort hlutfall flugtíma og lendinga er jafn hagstætt í þeim vélum sem hafa bæst við og þeim sem hafa verið í flotanum sl. 2 áratugi? Því svarar Guðjón Arngrímsson játandi. „Já, það er svipað, enda horft til þess þegar vélarnar eru teknar inn í flotann. Aldur flugvéla er almennt miðaður við fjölda lendinga, af framleiðanda og Flugmálastjórn Bandaríkjanna, og varðandi Boeing 757 og 767 er miðað við að líftími sé um 75 þúsund lendingar. Meðal lendingafjöldi okkar véla er um 20 þúsund eða innan við þriðjungur af aldri. Svo er aldur stundum einnig miðaður við flugtíma og þá miðað við 150 þúsund flugtíma fyrir Boeing 757 og 767. Meðaltalið okkar er um 62 þúsund tímar," segir í svari Guðjóns við fyrirspurn Túrista.
Þess má geta að í dag tilkynnti WOW air að félagið hefði gert samning um leigu á þremur flugvélum í viðbót og mun því hafa 15 Airbus þotur á sínum snærum á næsta ári.
Sjá nánar vefinn Túristi.is hér.