Stærri rannsóknastofa í D-álmuna
Eitt af því sem ákveðið var eftir sameiningu Heilsugæslustöðvarinnar og Sjúkrahússins 1998 var að Rannsóknastofan yrði færð undir skipurit heilsugæslusviðs Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Það hlýtur það að teljast eðlilegt með tilliti til þess að 80-90% af starfsemi hennar er samkvæmt beiðnum frá læknum heilsugæslusviðs. Þó í sjálfu sér breyti það engu um starfsemina, en tengi okkur meira stefnumótun heilsugæslusviðs en verið hefur. Rannsóknastofan verður færð í nýju D-álmuna á næsta ári í mun stærra rými og betri aðstöðu til móttöku, og verður það okkur vonandi hvatning til að veita betri þjónustu.Um það leyti er Kristján heitinn Sigurðsson tók til starfa sem yfirlæknir hér, var hann aðal hvatamaður að stofnun Rannsóknastofunnar, en það voru mjög skiptar skoðanir um gagnsemi þess á þeim tíma, jafnvel meðal læknanna (sem voru að vísu mjög fáir þá). En starfsemin hefur aukist og breyst í gegnum tíðina, með stöðugt betri tækni og endurnýjun á tækjakosti, en þar hafa líknarfélög og velunnarar átt stóran hlut í uppbyggingu og eiga þeir þakkir skildar.Okkar stefna er að reyna að veita sem besta þjónustu í heimabyggð, s.s. að gera sem flestar gerðir af rannsóknum á staðnum, og senda sem minnst frá okkur nema helst þær rannsóknir sem eru sjaldan gerðar og ekki hagkvæmt að leggja í að gera hér.Hér starfa 3 meinatæknar í heilum stöðugildum og taka á móti fólki í sýnatökur milli kl 8,30 og 9,30, auk þess sem verið er að taka við bráðatilfellum beint frá læknunum eins og til fellur það sem eftir er dagsins. Einnig er sér móttaka á Rannsóknastofu í Grindavík á mánudögum og fimmtudögum fyrir hádegi. Þá eru bakvaktir utan dagvinnutíma alla daga til miðnættis, en ekki um nætur.Við gerum allar algengustu rannsóknir í blóðmeinafræði, meinefnafræði og sýklafræði, en sendum til Reykjavíkur allar hormónamælingar og ónæmis- og veirurannsóknir, svo og blóðbankarannsóknir, auk lyfjamælinga og annarra tilfallandi mælinga.Við erum í samvinnu við Landsspítalann í Fossvogi og er yfirlæknirinn á rannsóknadeildinni þar, Ísleifur Ólafsson okkar ráðgefandi læknir og kemur hingað til skrafs og ráðagerða af og til og lítur yfir niðurstöður úr gæðakontroli sem við tökum þátt í mánaðarlega. En það sýnir gæði okkar rannsókna-niðurstaðna miðað við margar aðrar rannsóknastofur. Stefnt er að því að við verðum þáttakendur í tölvuvæðingu rannsóknastofa, á árinu vonandi, það ætti að gera fljótlegra og auðveldara að koma rannsóknaniðurstöðum til skila.Bráðaþjónustan er að sjálfsögðu mest við sjúkrahússviðið-Skurðstofuna-Almennu deildina og Fæðingardeildina. Auk almennrar þjónustu við heilsugæslusvið, skiptist hún í þjónustu við hópa eins og ungbarnaeftirlit, mæðravernd, skólahjúkrun og sjúklinga frá Víðihlíð, Hlévangi og Garðvangi og fl..Eftir að stofnuð var móttaka sykursjúkra hér 1. mars höfum við bætt við mælingum sem við gerðum ekki áður, en sú móttaka er á þriðjudögum og hefur verið vel sótt.Þá má líka nefna annan hóp sjúklinga sem hefur stækkað ört í mælingum hjá okkur síðustu ár, en það er það eru þeir sem þarf að mæla blóðþynningu hjá. Ekki má gleyma þeim hópi fólks sem kemur í sýnatöku vegna erfðarannsókna og er mikilvægt að fólk komi fyrir hádegi til þess að hægt sé að senda sýnin samdægurs.Loks vil ég hvetja fólk til að gæta að heilsunni.Gleðilegt sumar,kveðja,Sigurlaug N. ÞráinsdóttiryfirmeinatæknirHeilbrigðisstofnun Suðurnesja