Stærri myndir og myndbönd á vef Víkurfrétta
Eins og lesendur vf.is hafa tekið eftir nú eftir hádegið þá hefur framsetningu frétta verið breytt. Fréttaplássið hefur verið breikkað sem gefur okkur jafnframt möguleika á að setja stærri ljósmyndir með fréttum. Þá fá lifandi myndir einnig meira vægi á breyttri vefsíðu. Myndir með eldri fréttum hafa þó ekki stækkað en allar nýjar myndir verða settar inn stærri.
Nú þegar kreppir að í blaðaútgáfu og prentaðar síður eru færri en í venjulegu árferði, þá leggjum við hjá Víkurfréttum aukna áherslu á vefútgáfu okkar. Við beinum því meira af efni út á vefinn. Hjá Víkurfréttum hefur ávallt verið lagður metnaður í að vera með myndir með fréttum og með breyttri framsetningu aukum við vægi ljósmynda á netinu.
Einnig eru myndbönd í Sjónvarpi Víkurfrétta hér á vf.is orðin stærri og eru í breiðtjaldsspilara í stærðinni 640x360 pixlar.
Áfram hvetjum við lesendur til að standa með okkur fréttavaktina hér á vf.is. Ábendingar um fréttir má senda á [email protected] eða hringja í síma 421 0002. Eftir lokun skiptiborðs flytjast símtöl til blaðamanns/ljósmyndara á vakt.