Stærðfræðin kom vel út í samræmdum prófum sl. haust
Meðaleinkunnir samræmdra prófa hjá 4. og 7. bekk í stærðfræði á Suðurnesjum, eru hærri nú en síðastliðin ár. Samræmd próf í íslensku komu ekki eins vel út. Prófin voru lögð fyrir í október 1999 og niðurstöðurnar birtust nú í desember. Meðaleinkunn í íslensku hjá 4. bekk var 4,6 en 4,5 hjá 7. bekk. Meðaleinkunnir í stærðfræði voru hins vegar 5,1, bæði hjá 4. og 7. bekk. Eiríkur Hermannsson, skólamálastjóri Reykjanesbæjar, sagði að þessar niðurstöður kæmu sér ekkert sérstaklega mikið á óvart. „Á undanförnum árum hefur sérstök áhersla veri lögð á stærðfræðikennsluna. Stærðfræðikennarar hafa verið duglegir við að fara á ýmis konar endurmenntunarnámskeið og farið að kenna stærðfræðina út frá annarri nálgun. Þessi góði árangur í stærðfræði á Suðurnesjum hefur þegar vakið talsverða athygli. Ég tel að við getum einnig bætt árangurinn í íslensku á sama hátt“, sagði Eiríkur Hermannsson.