Stækkaður innritunarsalur tekinn í notkun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, tók á föstudag formlega í notkun glæsilegan innritunarsal í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eftir 1.000 fermetra stækkun til vesturs. Nýi innritunarsalurinn skapar farþegum og starfsfólki í flugstöðinni stóraukið og þægilegt athafnarými og skilyrði til hraðari, skilvirkari og betri þjónustu. Framkvæmdir hófust í janúar síðastliðnum og þeim lauk á tilsettum tíma að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Starfsumhverfi bílaleigufyrirtæka hefur einnig verið verulega bætt við komuhlið. Bílastæðum var fjölgað um 500 við austurhlið flugstöðvarinnar og aðkomuleiðum breytt. Malbikuðum stæðum hefur því fjölgað úr tæplega 100 í 500.
Stækkun innritunarsalarins er liður í umfangsmikilli framkvæmdaáætlun til tveggja ára sem miðar að því að auka húsrými og breyta skipulagi í Flugstöðinni svo anna megi fjölgun farþega sem leið eiga um Keflavíkurflugvöll.
Í haust hefjast framkvæmdir við að stækka móttökusal komufarþega til austurs um 1.000 fermetra og auka við rými fríhafnarverslunar í norðurbyggingu. Þá er á dagskrá að stækka og endurskipuleggja brottfarasvæði á 2. hæð.
Framkvæmdum á að ljúka snemmsumars 2005. Heildarkostnaður við stækkun og breytingar í Flugstöðinni á árunum 2004 og 2005 er áætlaður allt að 1,2 milljörðum króna.