Stækka virkjun HS Orku í Svartsengi
HD ehf. og HS Orka hafa undirritað samninga um uppsetningu vélbúnaðar vegna stækkunar virkjunar HS Orku í Svartsengi ásamt rammasamningi um verktakaþjónustu.
Þann 8. mars voru undirritaðir samningar milli HD ehf. og HS Orku sem fela í sér efnisútvegun, smíði og uppsetningu á hverfilsamstæðu vegna stækkunar virkjunar HS Orku í Svartsengi ásamt rammasamningi um verktakaþjónustu.
Verkið felur í sér efnisútvegun og smíði palla, stiga, pípuundirstöðu og pípukerfa í stöðvarhúsi ásamt dælustöð við kæliturn, smíði og uppsetningu á dropaskilju, uppsetningu og samsetningu eimsvala, gassogskerfa, kæliturns og hverfilsamstæðu í Orkuveri 7.
Orkuverið í Svartsengi er lykilinnviði í samfélaginu á Suðurnesjum og stækkun þess gríðarlega mikilvæg orkuöryggi þjóðarinnar, segir í tilkynningu frá HD ehf.
„Samningurinn um uppsetningu vélbúnaðar er stærsti einstaki samningur sem gerður hefur verið í sögu félagsins og erum við í HD ehf. gríðarlega stolt af því að HS Orka hafi leitað til okkar og óskað eftir okkar aðkomu að þessu verkefni,“ segir Þorvaldur Tolli Ásgeirsson, sölu- og markaðsstjóri HD ehf.
Gert er ráð fyrir að vinna hefjist sem allra fyrst og áætluð afhending verksins er 30. október 2025.