Stækka flugstöðina í vetur
Farþegafjölgun undanfarinna ára um Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur verið mætt með ýmsum hætti til aukningar á afköstum flugstöðvarinnar og er fyrirhugað að ráðast í stækkun hennar í vetur til þess að að auka afköstin enn frekar fyrir næsta sumar.
Ráðgert er að reisa viðbyggingu með kjallara og tveimur hæðum við vesturálmu suðurbyggingar flugstöðvarinnar, samtals nærri 5.000 fermetrar að flatarmáli. Þar verða sex brottfararhlið sem þjóna munu svonefndum fjarstæðum í grennd við flugstöðina og verður farþegum ekið til og frá flugvélum í sérbyggðum rútubifreiðum.
Nýja viðbyggingin mun auka sveigjanleika flugstöðvarinnar og auðvelda afgreiðslu á háannatíma. Hönnun og byggingarform hússins verður einfalt og með þeim hætti að sem mestur sveigjanleik náist í rekstri. Þá verður einnig fljótlega hafin stækkun farangursflokkunarkerfisins sem tvöfalda mun afkastagetu þess fyrir sumaráætlun þessa árs.