Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Stækka flughlöð og koma upp gistiaðstöðu á öryggissvæðinu
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
fimmtudaginn 26. september 2019 kl. 13:56

Stækka flughlöð og koma upp gistiaðstöðu á öryggissvæðinu

Tillaga að deiliskipulagi fyrir öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli er nú til meðferðar hjá skipulagsyfirvöldum í Reykjanesbæ. Öryggissvæðið er það svæði við Keflavíkurflugvöll þar sem Landhelgisgæsla Íslands annast daglegan rekstur í umboði utanríkisráðuneytisins. Óskað var eftir umsögn Reykjanesbæjar vegna deiliskipulags öryggissvæðis á Keflavíkurflugvelli. Á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsráðs bæjarins var umsögn skipulagsfulltrúa samþykkt.

Hér að neðan má sjá nokkrar upplýsingar um hluta af því sem til stendur að gera á öryggissvæðinu skv. deiliskipulagstillögunni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Flughlað og svæði fyrir hættulegan farm

Flughlað á vestursvæði, norðan við Sveinsvöll, er í dag um 10 ha. Heimilt er að stækka hlað innan afmörkunar, fyrir nýja vegi og hlöð, um allt að 20 ha. Heimilt er að nota svæðið sem flughlað og sem svæði fyrir hættulegan farm, segir í tillögunni. Heimilt er byggja þjónustubyggingar á einni hæð á byggingarreit 1, allt að 5 m að hæð frá botnplötu, sunnan við núverandi flughlað.

Skammtíma gistiaðstaða

Svæði er fyrir skammtíma gistiaðstöðu er sunnan við Sveinsvöll. Svæðið er um 18 ha að stærð. Forsenda stærðar er að hægt sé að koma fyrir allt að 1.000 manneskjum í skammtíma gistiaðstöðu, sem tengjast öryggis- og varnartengdum verkefnum samanber þjóðréttarskuldbindingar Íslands. Svæðið er afmarkað til þess að áætlun fyrir svæðið sé til staðar ef til þess komi að þörf verði fyrir nýtingu þess. Svæðið er ætlað fyrir æfingar eða sem neyðarúrræði fyrir atvik sem gætu komið upp vegna nýtingar svæðisins í tengslum við öryggis- og varnartengd verkefni.

Gert er ráð fyrir að innan byggingarreits á austurhluta svæðisins sé heimilt að byggja eldhúsaðstöðu, salernisaðstöðu og annan aðbúnað fyrir þau sem gista á svæðinu. Heildar byggingarmagn á byggingarreit er allt að 1.000 m2. Á svæðinu er heimilt að setja gáma, tjöld eða annarskonar tímabundnar einingar. Gert er ráð fyrir að á svæðinu verði rotþró, hreinlætisaðstaða, götur, raflagnir og tilheyrandi dreifikerfi, segir í tillögunni.

Gistisvæði á austursvæði

Á deiliskipulagsuppdrætti er skilgreint gistisvæði, sem er svæði fyrir mannvirki til tímabundinnar dvalar, fyrir gesti sem tengjast öryggis- og varnartengdum verkefnum, samanber þjóðréttarskuldbindingar Íslands. Á svæðinu eru skilgreindir 13 byggingarreitir, 4 fyrir nýjar byggingar og 9 reitir þar sem þegar eru byggingar og heimilt er að auka byggingarmagn.

Á byggingarreitum sem skilgreindir eru í diliskipulagstillögunni er heimilt að byggja eitt fjölbýlishús, allt að tvær hæðir með allt að 70 gistieiningum, ásamt minni byggingum á einni hæð sem tengjast nýtingu svæðisins þar sem við á, svo sem skúra og geymslurými.

Forsendur staðsetningar nýrra byggingarreita á austursvæði er að þétta byggð á svæðinu, þannig að nýjar gistieiningar séu í nágrenni og samhengi við eldri byggð, og í nágrenni við þjónustubyggingu.

Lögð er áhersla á að á gistisvæði verði gott net göngustíga. Sérstaklega skal hugað að því að mannvirki fyrir gistieiningar séu vel tengd við þjónustubyggingu.