Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Staðsetning sem Veðurstofan er að benda á er afar óheppileg
Frá upplýsingafundi Almannavarna í dag. Ljósmynd: Veðurstofa Íslands
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
mánudaginn 6. nóvember 2023 kl. 22:26

Staðsetning sem Veðurstofan er að benda á er afar óheppileg

HS Orka er með til skoðunar að sprauta vatni á hraun til að verja mannvirki í Svartsengi. Þar kemur til greina að nota niðurdælingarvatn sem í dag er dælt aftur niður í jarðhitakerfið. Virkjunin í Svartsengi er gríðarlega mikilvægur innviðapunktur fyrir alla grunnþjónustu á Suðurnesjum. Í Svartsengi er auk rafmagns framleitt allt það heita vatn sem notað er til húshitunar á Suðurnesjum, auk þess að í Svartsengi er stjórnað kaldavatnsupptökusvæðinu í Lágum sem síðan fer til dreifingar sem neysluvatn til byggða en kalt neysluvatn kemur úr sömu lindum og það vatn sem hitað er í Svartsengi og dreift sem heitu vatni um svæðið. Kristinn Harðarson, framkvæmdastjóri frá HS Orku, fór yfir þau mál er snúa að orkuverinu í Svartsengi á upplýsingafundi Almannavarna.

„Svartsengi er mikilvægasta virkjunin okkar þessi atburður setur starfsemina þar á allt annað stig. Við höfum verið að vinna í okkar viðbragðsáætlunum. Það hefur snúist um hvernig við tryggjum öryggi okkar starfsmanna og okkar verktaka. Við höfum verið að skilgreina okkar flóttaleiðir og rýmingaráætlanir og gera æfingar á þeim. Einnig að koma fyrir gasmælum til að gefa viðvaranir ef að yrði skyndilegur viðburður. Einnig hafa vaktmenn sem eru þarna lengur en aðrir persónugasmæla. Við höfum einnig endurskipulagt verk þannig að við höfum sem færsta starfandi í Svartsengi en það er í þeirri hugsun að við séum snöggir að rýma ef til þess kæmi,“ sagði Kristinn á fundinum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kristinn segir að það sé mikil áhersla á það að tryggja órofna starfsemi í virkjuninni í Svartsengi því hún gegni mikilvægu hlutverki. Í virkjuninni er vakt alla daga ársins, allan sólarhringinn og þar er unnið að fyrirbyggjandi viðhaldi til að tryggja rekstraröryggi.

„Í þessum jarðskjálftum sem hafa verið, sem hafa verið umtalsverður, þá hefur reynt mjög á innviði orkuversins en allur búnaður hefur staðist þá raun og við höfum náð að halda órofinni starfsemi, þrátt fyrir þennan atburð sem er í gangi. Einnig höfum við gengið þannig frá hlutunum að við getum fjarstýrt virkjuninni frá Reykjanesvirkjun, Ef að til rýmingar kæmi myndu vaktmenn að sjálfsögðu yfirgefa Svartsengi en starfseminni yrði haldið áfram og henni yrði fjarstýrt frá Reykjanesvirkjun og ef að öruggt væri þá myndu nokkrir starfsmenn koma inn til Svartsengis til að stjórna virkjuninni þar.

Ef það kemur upp eldgos þá hefur verið unnin mjög merkileg vinna á vegum Almannavarna við skilgreiningu á vörnum mikilvægra innviða. Það voru gerðar tilraunir í fyrri gosum við að setja upp hraunflóðavarnagarða og leiðigarða. Það var mikil vitneskja sem skapaðist við þá tilraunastarfsemi sem að segir hvað virkar og hvað ekki. Við höfum verið að horfa til þess að geta gripið til slíkra aðgerða ef að gosið verður á þannig stað og hraunflæðið sé með þeim hætti að eiga við það, þá sé hugsanlega hægt að vinna með hæðir í landslaginu og setja upp varnarhöft sem geti beygt hraunstraumi í aðrar áttir og varið orkuverið með þeim hætti. Einnig höfum við verið að skoða leiðir til að sprauta vatni á hraun eða jafnvel niðurdælingarvatni sem við erum alla jafna að dæla niður í jarðhitakerfið og tengja við niðurdælingarkerfin okkar til að geta hugsanlega hægt á hraunstraumi. Við höfum skilgreint slíkar aðgerðir til varnar orkuverinu.

Ef að þetta verður með þeim hætti að það kemur upp gos á óheppilegum stað og hraunflæðið verður með þeim hætti að ekkert verður við ráðið þá munum við engu að síður reyna eftir fremsta megni að verja mikilvæga innviði eins og borholurnar og jafnvel að fergja þær með malar- og sandfyllingum til að geta verið snöggir af stað með að koma starfseminni í gang aftur að loknu gosi. Við erum að vinna út frá svörtustu sviðsmyndum og þessi staðsetning sem að Veðurstofan er að benda á er afar óheppileg þar sem þetta er mjög nálægt orkuverinu.

Það hefur líka verið unnin vinna á okkar vegum og í samstarfi með Almannavörnum og HS Veitum um að skilgreina hvað sé hægt að gera ef að það verður rof á starfsemi í orkuverinu og hvernig sé þá hægt að afhenda rafmagn, vatn og hugsanlega heitt vatn til byggða á Suðurnesjum. Við höfum verið að skilgreina viðbrögð við því og undirbúa það.“