Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 12. júlí 2001 kl. 12:01

Staðardagskrá 21 staðfest í Reykjanesbæ

Reykjanesbær hefur samþykkt Staðardagskrá 21 en þar er ekki einungis lögð áhersla á umhverfismál heldur og hvernig bæta megi menntunar- og atvinnumöguleika fólks. Forráðamenn bæjarfélagsins segja samþykkt staðardagskrár 21 vera skref í því að bæta ímynd Reykjanesbæjar.Á blaðamanafundi á leikskólanum Hjallatúni á þriðjudag undirritaði Siv Friðleifsdóttir, umhverfisráðherra og Kjartan Már Kjartansson, frá Reykjanesbæ Ólafsvíkuryfirlýsinguna sem er íslenska Kíótó yfirlýsingin um umhverfismál og sjálfbæra þróun í framtíðinni. Þá voru undirritaðir samningar um umhverfisverkefnið Vistvernd í verki sem snýst um að fræða almenning um nýjan lífsstíl. Þá afhenti fyrirtækið Njarðtak öllum leikskólum safnkassa til að byrja að endurvinna lífrænan úrgang.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar ákvað fyrir 3 árum að gerast aðili að staðardagskrá 21. Áætlunin hefur nú litið dagsins ljós og var samþykkt í bæjarstjórn fyrir stuttu. Áætlunin miðar að því að bregðast við núverandi ástandi og fræða íbúa Reykjanesbæjar um mikilvægi umhverfiverndar.

Staðardagskrá 21
Staðardagskrá 21 er liður í ályktun sem samþykkt var á umhverfisráðstefnunni í Río fyrir 9 árum um umhverfi og þróun. Öll sveitarfélög sem eru aðilar að Staðardagskránni gera áætlun um leiðir að betra samfélagi. Í heildaráætluninni er fjallað um hvernig hægt er að jafna kjör íbúa, bæta menntunar- og atvinnumöguleika auk þess sem áhersla er lögð á umhverfið. Þar sem fyrrnefndu atriðin eru í góðum farvegi í Reykjanesbæ verður megináherslan í tillögunum lögð á umhverfismál. Gert er ráð fyrir að ljúka öllum framkvæmdum við fráveitukerfi í bæjarfélaginu árið 2005. Þá verður hafist handa við markvissa flokkun sorps á næsta ári. Í áætlunni er líka fjallað um gæði neysluvatns og stefnt að því að vernda vatnsbólin fyrir mengun og koma á vottuðu gæðakerfi. Í tillögunum er fjallað um leiðir til að minnka náttúrumengun og efla fræðslu meðal fyrirtækja. „Til að verkefnið nái tilætluðum árangri er nauðsynlegt að allir taki þátt í verkefninu,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarfulltrúi.

Umhverfisstefna mikilvæg
Til að ná fyrrgreindum markmiðum er nauðsynlegt að allir íbúar bæjarins séu meðvitaðir um umhverfi sitt og taki þátt í umhverfisvernd en það kallar á hugarfarsbreytingu hjá almenningi. Fyrirtæki og heimili þurfa því að koma sér upp umhverfisstefnu en gert er ráð fyrir samstarfi við Landvernd á þátttöku í verkefninu „Vistvernd í verki“. Á næstunni verður sendur út bæklingur þar sem verkefnið verður kynnt almenningi.
Allir skólar á svæðinu myndu móta sína eigin umhverfisstefnu. Umhverfisvernd verður stór þáttur í námskrá skólanna og námsgreinar miða að því að fræða börn og unglinga um mikilvægi náttúruverndar og þau kynnist sínu nánasta umhverfi. Vetttvangsferðir verði fastur liður í skólanámskrám þar sem nemendur fá tækifæri til þess að kynnast gróðurfari, dýralífi og fleiru í umhverfinu. Þá er gert ráð fyrir því að skólar hefji endurvinnslu á pappír og umbúðum á næsta ári. Öll fræðsla verður bætt til muna og er gert ráð fyrir að menningarminjar verði aðgengilegri fyrir íbúa. Kjörorð verkefnisins eru: „Því klókari, því færri skref“ og eru tilvitnun í gamlan indjánamálshátt sem þýðir að því klókari sem menn eru því erfiðara er að rekja slóð þeirra.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024