Spyr um fatlaða nemendur í framhaldsskólum
Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, hefur lagt fyrirspurn fyrir mennta- og menningarmálaráðherra varðandi fatlaða nemendur í framhaldsskólum. Páll Valur spyr ráðherra fimm spurninga.
Páll Valur spyr hvort liggi fyrir tölulegar upplýsingar um það hve margir nemendur, sem skilgreindir eru með skerðingar í grunnskóla, ljúka framhaldsskólanámi samanborið við aðra nemendur? Þá spyr hann hvernig því fjármagni hafi verið varið sem úthlutað er til framhaldsskóla verið skipt milli fatlaðra nemenda á starfsbrautum og fatlaðra nemenda sem sækja nám á öðrum brautum en starfsbrautum, t.d. bóknámsbrautum?
Páll Valur spyr einnig á grundvelli hvaða þátta er sérstöku fjármagni vegna fatlaðra nemenda úthlutað framhaldsskólum? Hvað hefur verið gert til þess að stuðla að samfellu í þjónustu við fatlaða framhaldsskólanemendur sem þurfa mikla persónulega aðstoð á skólatíma?
Að lokum spyr Páll: Hefur hafist formlegt samtal um samvinnu ríkis og sveitarfélaga þegar kemur að kostnaðarþátttöku ríkisins í NPA-samningum framhaldsskólanema á skólatíma?