Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Spurt um sprengjuleit á Háabjallasvæðinu á Alþingi
Miðvikudagur 7. apríl 2004 kl. 14:40

Spurt um sprengjuleit á Háabjallasvæðinu á Alþingi

Lögð hefur verið fram fyrirspurn á Alþingi um sprengjuleit á Háabjallasvæðinu í landi Vatnsleysustrandarhrepps. Jón Gunnarsson alþingismaður lagði fram fyrirspurnina sem er í 5 liðum. Í fyrirspurninni er meðal annars spurt hver beri ábyrgð á leit á sprengjum og eyðingu þeirra á gömlum athafna- og æfingasvæðum varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.
Jón spurði ráðherra hve miklu fé ríkissjóður hafi varið til sprengjuleitar í Írak og hver árangur hafi verið. Einnig er spurt hve miklu fé ríkissjóður hafi varið til sprengjuleitar á fyrrverandi æfingasvæði Varnarliðsins í Vatnsleysustrandarhreppi og hver árangurinn af þeirri leit hafi verið. Í fyrirspurninni er einnig spurt hve miklu fé ríkissjóður hafi verið til sprengjuleitar á öðrum stöðum á Íslandi. Ráðherra er spurður hvort hann telji ekki þörf á að efla leit að sprengjum og eyðingu þeirra á stöðum á Íslandi þar sem vitað er að sprengjur kunni að leynast.

Fyrirspyrjandi Jón Gunnarsson sagði í samtali við Víkurfréttir að hreppsnefnd og sveitarstjóri Vatnsleysustrandarhrepps hafi mjög lengi staðið í viðræðum við Utanríkisráðuneytið varðandi nauðsyn þess að setja upp viðvörunarskilti við Háabjallasvæðið og gönguleiðir þar í kring. „Í þessum viðræðum hefur einnig verið rætt um að ríkið ráðist í sprengjuleit á svæðinu þar sem óþolandi er fyrir vegfarendur um svæðið, bæði börn og fullorðna að þeir eigi það á hættu að rekast á virka sprengju.“
Jón segir að viðvörunarskilti séu loks komin upp eftir fund í Utanríkisráðuneytinu en að enn vanti ákveðin svör um sprengjuleit á svæðinu. „Það kom fram í máli Landhelgisgæslumanna í fréttum að engar fjárheimildir væru til þess að leita á þessu svæði og að þeir væru jafnvel að eyða frítíma sínum í það. Þetta teljum við í Vogum óásættanlegt og teljum tímabært að ákveðin svör fáist um málið og er fyrirspurnin hluti af upplýsingaleit vegna þess.“

Myndir: Starfsmenn Sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar hafa nýlokið við að setja upp viðvörunarskilti við Háabjalla.

Sprenging við Háabjalla í apríl í fyrra þegar sprengja sem 12 ára strákar var sprengd af starfsmönnum sprengjudeildarinnar.

VF-ljósmyndir/Jóhannes Kr. Kristjánsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024