Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sprotafyrirtæki notar nemendur Keilis
Mánudagur 12. ágúst 2013 kl. 09:39

Sprotafyrirtæki notar nemendur Keilis

GeoSilica var stofnað af tveimur útskrifuðum tæknifræðingum Keilis haustið 2012

Í sumar hefur hópur tæknifræðinemenda Keilis unnið að verkefnum fyrir sprotafyrirtækið GeoSilica, en það var stofnað af tveimur útskrifuðum tæknifræðingum Keilis haustið 2012.

„Við höfum lengi hugsað okkur að hægt væri að búa til góð nemendaverkefni úr þeim tæknilegu vandmálum sem við þyrftum að leysa í GeoSilica“ segir Burkni Pálsson, annar stofnanda GeoSilica. „Okkur fannst það einnig góð hugmynd að hafa virkt samstarf við Keili og gefa nemendum í tæknifræði svona dæmigerð viðfangsefni tæknifræðinga til að spreyta sig á og búið til spennandi verkefni úr þeim tæknilegu úrlausnarefnum sem við þyrftum að leysa fyrir framleiðslu.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Nemendur úr tæknifræðinámi Keilis voru fengnir til að hanna og smíða suðutank (800 – 1.000 lítra sem uppfyllir alla staðla og reglugerðir í matvælaframleiðslu) sem er lofttæmdur til að lækka suðumark vökvans og hefur sjálfvirka hæðarstýringu á yfirborði vökva til að koma í veg fyrir kísilútfellingar. Einnig þurfti að hanna varmaskipti sem nýtir varmann sem allra best og bæði þolir tæringu vel ásamt því að lágmarka hugsanlegar kísilútfellingar, auk þess að koma fyrir búnaði sem skynjar hvenær réttum styrk efna í vatninu er náð og tæmir tankinn í flutningstank. Búnaðurinn þarf að vera eins sterkur og öruggur m.t.t. bilana og hægt er ásamt því að vera á samatíma hagkvæmur.

Búnaðinum verður komið fyrir í 20 feta gám sem GeoSilica útvegar og verður staðsettur á tilraunasvæði Hellisheiðarvirkjunar. Huga þarf að loftræstingu í gámnum og koma þarf fyrir rafmagni og lögnum í honum sem er partur af verkefninu. Verkefnið tekur á efnisfræði (val á efnum, tæring o.s.frv.), varmafræði (hönnun varmaskiptis) og stýringum og skynjurum (mekatróník). Verkefnið hentar því blönduðum hópi af báðum brautum tæknifræðinámsins og er dæmigert verkefni sem tæknifræðingar fást við.

Samkvæmt Burkna hefur verkefnið gengið vonum framar. „Það hefur verið alveg frábært að sjá hversu úrræðagóður hópurinn er og hvernig hugmyndirnar flæða fram og eru svo stöðugt endurbættar. Við erum bara virkilega ánægð með þennan sjö manna hóp en allir í hópnum eru nemar á fyrsta ári sem hafa iðnmenntun eða slíka kunnáttu sem bakgrunn. Það hversu breiður bakgrunnur nemenda í ýmsum iðngreinum er, er mikill kostur sem ber að nýta og tengja inn í námið“.

Nánar á heimasíðu Keilis.