Sprengjuhótun í vél WOW air
145 farþegar innanborðs
Lenda þurfti flugvél frá flugfélaginu WOW air, á gamla varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli, vegna sprengjuhótunar nú fyrir stundu. Flugvélin var að koma frá Gatwick flugvelli í London með 145 farþega innanborðs. Vélin lenti um klukkan hálf þrjú. Farþegar voru fluttir með rútum frá vélinni að flugstöðinni þar sem þeim stendur til boða áfallahjálp á vegum Rauða krossins.
Svanhvít Friðriksdóttir upplýsingafulltrúi WOW air segir að sprengjusveit Landhelgisgæslunnar sé komin á staðinn og ákveðið öryggisferli sé komið í gang. Farangur verður gegnumlýstur og farþegar fá ekki farangur sinn fyrr en í kvöld þegar leit hefur verið lokið. Sprengjuhótunin barst með símhringingu í þjónustuver flugfélagsins. Svanhvít segir hótanir sem þessar alltaf teknar alvarlega.
Rúv greinir frá.