Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sprengjuhótun í flugvél á Keflavíkurflugvelli
Þriðjudagur 18. nóvember 2003 kl. 18:21

Sprengjuhótun í flugvél á Keflavíkurflugvelli

Gríðarlegur viðbúnaður er í Leifsstöð eftir að tékknesk Airbus-þota sneri til Keflavíkur vegna sprengjuhótunar sem barst Czech Airlines. Þegar óskað var eftir því að hún fengi að lenda á Keflavíkurflugvelli var hún stödd um 660 sjómílur suðvestur af Reykjanesi, eða á 57N og 40V. Hún lenti klukkan 17:53 á Keflavíkurflugvelli og eftir lendingu var henni ekið inn á braut 07-25 þar sem hún var látin nema staðar. 174 farþegar þotunnar og 10 manna áhöfn hafa verið flutt frá borði með rútum í slökkvistöðina á flugvellinum og þangað verður einnig farið með farangurinn og farþegar látnir bera kennsl á hann ásamt því sem leitað verður í flugvélinni sjálfri að ætlaðri sprengju. Neyðarástandi hefur þó verið aflýst.

Mbl.is hefur eftir Víði Reynissyni hjá Samhæfingarmiðstöð almannavarna að handfarangur og annar farangur verði gegnumlýstur í sérstökum þar til gerðum bíl sem lögreglan fékk í fyrra og er farþegar hafa síðan borið kennsl á föggur sínar er gert ráð fyrir að þeir fái að fara í flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Víðir segir að nú sé í gangi önnur tveggja áætlana sem fari í gang er atvik af þessu tagi eigi sér stað, svonefnd flugverndaráætlun. Um leið og vélin hafi lent heilu og höldnu sé hinni áætluninni, hópslysaáætlun, lokað. Nú taki við leit í flugvélinni og farið sé með málið sem glæpamál og það rannsakað sem slíkt.

Gripið var til mikils viðbúnaðar í samræmi við hópslysaáætlunina. Bílafloti björgunarsveita af höfuðborgarsvæðinu beið við Straumsvík og einnig sjúkrabílar og farartæki liðsmanna Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS), en af þess hálfu var ræst út á annað hundrað manns vegna sprengjuhótunarinnar.

Björgunarsveitir á Suðurnesjum voru einnig í viðbragðsstöðu.

Áætlað er að vélin fari af landi brott á morgun eftir að sprengjusérfræðingar hafa leitað af sér allan grun.

VF-ljósmyndir/Páll Ketilsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024