Sprengja í Eldey
Tortryggilegur hlutur sem fannst í Eldey um helgina er talinn vera sprengja frá stríðsárunum og rannsakar sprengjudeild Landhelgisgæslunnar nú myndir af hlutnum. Frá þessu var greint í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.
Sigurður Harðarson fór um helgina í sína áttundu ferð til Eldeyjar, einnar stærstu súlubyggðar í Evrópu, til að yfirfara myndavélabúnað fyrir sumarið. Þegar allt var hins vegar klappað og klárt kom í ljós að fluginu heim hafði seinkað.
„Þyrlan þurfti að fara í sjúkraflug þannig að þeir sögðu að þeir myndu gefa okkur klukkutíma, einn og hálfan í viðbót og þá notuðum við tímann til að rölta um eyjuna. Aðstoðarmenn mínir, myndatökumaður frá ykkur og sonur hans, þeir fundu þessa sprengju, sem við höldum að sé sprengja, það hátt frá sjó að hún hefur ekki komið nema úr lofti,“ segir Sigurður í samtali við Stöð 2 en hann telur jafnframt að herinn að hafi notað Eldey sem skotmark í gamla daga.
Haft var samband við sprengjudeild landhelgisgæslunnar til þessa að kanna málið en ákveðið var að fyrst yrðu myndirnar af þessum tortryggilega hlut yfirfarnar.
Bannað er að fara út í eyna án leyfis og enginn má fara þangað eftir að súlan kemur. Sprengjudeildin verður að hafa hraðar hendur ef hún vill fá botn í málið á næstunni því fuglarnir hafa komið tvö ár í röð í hádeginu þann 22.janúar.