Sprengja fannst við Rockville
Tveir Svisslendingar fundu ætlaða handsprengju í móa utan girðingar við gömlu ratsjárstöðina í Rockville í morgun. Lögreglan á Keflavíkurflugvelli var kölluð til ásamt herlögreglunni. Þá kom í ljós að um reyksprengju var að ræða sem notuð hafði verið við æfingar. Hún var ósprungin.Það var Guðmundur Jónsson í Byrginu sem kallaði til lögregluna en Svisslendingarnir eru á hans vegum í Byrginu og voru á leið í að laga steinhleðslur þegar þeir gengu fram á sprengjuna. Þeir þorðu ekki að snerta hlutinn en pinninn var enn í sprengjunni. Lögreglan hvatti til þess að svona hlutir væru ekki snertir, heldur væru kallaðir til menn með kunnáttu í meðhöndlun þessara hluta.